Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Bæjarstjórn samþykkti niðurrif sundhallar

11.09.2018 - 11:13
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkti að heimila niðurrif á Sundhöll Keflavíkur á fundi sínum í síðustu viku. Byggingin er í eigu verktakafyrirtækis sem hyggst byggja fjölbýlishús á lóðinni, sem er við Framnesveg.

Greint er frá þessu á vef Víkurfrétta. Tíu bæjarfulltrúar samþykktu niðurrif en Margrét Sanders, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks sat hjá við atkvæðagreiðsluna. Í umræðum um málið sagði hún að brýnt væri að læra af málinu. Strax hafi skapast mikill ágreiningur um það hvort vernda ætti sundhöllina eða heimila niðurrif á henni. Sambærileg mál eigi eftir að koma til kasta bæjarstjórnar á næstunni og að hennar mati þurfi að vinna þau betur. Friðjón Einarsson, bæjarfulltrúi Samfylkingar og formaður bæjarráðs, kvaðst vera ósammála Margréti og sagði að þvert á móti hafi málið fengið faglega afgreiðslu innan stjórnsýslu sveitarfélagsins. Brýnt væri að halda sig við reglur en ekki tilfinningar við afgreiðslu mála.

Íbúasamtök voru stofnuð um varðveislu sundhallarinnar en niðurstaða Minjastofnunar í ágúst síðastliðnum var að mæla ekki með því byggingin verði friðuð.

Guðjón Samúelsson og Bárður Ísleifsson hjá Húsameistara ríkisins teiknuðu sundhöllina. Framkvæmdir við sundlaugina sjálfa hófust árið 1937. Fyrstu árin var hún útisundlaug. Sundhöllin var svo byggð árið 1945. Sundlauginni var lokað árið 2006 og um tíma var Hnefaleikafélag Suðurnesja með starfsemi sína þar.

Mynd með færslu
Eldri mynd af sundhöllinni, sem var tekin áður en húsið var klætt. Mynd: Aðsend mynd