Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Bæjarstjóri vill skýringar frá lögreglu

13.01.2016 - 12:12
Mynd með færslu
 Mynd: ?? - wikipedia.org
Bæjarstjórinn á Akranesi hefur krafið lögregluna um skýringar á því hvers vegna barnaverndaryfirvöldum var ekki gert viðvart þegar 16 ára stúlka var látin afklæðast svo hægt væri að leita á henni. Bæjarstjórinn segir að starfsmenn barnaverndar séu tiltækir allan sólarhringinn. Embætti umboðsmanns barna segir lögreglu skylt að hafa samband við barnaverndaryfirvöld.

 Lögreglan á Vesturlandi fékk ábendingu um að fíkniefni væri að finna í bíl sem var á ferð á svæðinu. Bíllinn var stöðvaður og þeir sem í honum voru færðir á lögreglustöð. Fréttablaðið greindi fyrst frá. Sextán ára stúlka var í bílnum og var henni gert að afklæðast og beygja sig þannig að hægt væri að skoða hana, án snertingar. Engin fíkniefni fundust. Barnaverndaryfirvöldum var ekki gert viðvart og hefur Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri á Akranesi óskað eftir skýringum frá lögreglunni.

„Já ég sendi bréf í gær til lögreglustjórans á Vesturlandi og óskaði eftir skýringum á því af hverju barnaverndaryfirvöldum á Akranesi hafi ekki verið gert viðvart.“

„Hefurðu fengið einhver svör?“

„Nei, ég hef náttúrulega bara fengið staðfestingu á því að erindið hafi verið móttekið og ég hugsa að þeir séu bara að skoða og rannsaka þetta mál.“

Regína segir að á Akranesi séu starfsmenn barnaverndar tiltækir allan sólarhringinn og því hefði verið hægt að ná sambandi við þá.

„Já við erum með barnaverndarstarfsmenn hér á dagvinnutíma og síðan tekur bakvakt við klukkan fimm á daginn til átta á morgnana og allar helgar þannig að við erum alltaf með tiltækan barnaverndarstarfsmann“ segir Regína.

Þá segir hún að ef að barn, sem afskipti eru höfð af, eigi lögheimili annars staðar sé haft samband við barnaverndaryfirvöld þar. Regína segist ekki vita um önnur dæmi af þessu tagi og segir að samstarfið við lögregluna hafi verið mjög gott.

Embætti umboðsmanns barna segist ekki geta tjáð sig um einstaka mál, en geti þó staðfest að verðferðar- og mannréttindasvið Akraneskaupstaðar hafi haft samband við embættið til að ræða almennt þær reglur sem gilda þegar lögregla hefur afskipti af börnum. Þá er bent á að lögreglu sé skylt að hafa samband við barnavernd ef grunur leikur á að barn á aldrinum 15 til 18 ára hafi framið brot gegn almennum hegningarlögum eða annað brot sem geti varðað þyngri refsingu en tveggja ára fangelsi. Þá eigi auk þess, sé barn undir 18 ára handtekið, að hafa samband við foreldra og fulltrúa barnaverndarnefndar og hvetja þá til að koma án tafar á lögreglustöð. Einnig segir í svari umboðsmanns barna að samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna beri öllum stjórnvöldum, þar á meðal lögreglu, hafa það að leiðarljósi sem sé börnum fyrir bestu. Því sé ljóst að ákveðin sérsjónarmið gildi um handtöku, leit og aðrar aðgerðir sem beinast að börnum og mikilvægt sé að þeim sé sýnd sérstök nærgætni.

Þá segir í svarinu að embættið viti að umrætt mál sé til skoðunar og muni fylgjast með þeirri vinnu.

 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV