Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Bæir umflotnir og leysingavatn flæðir yfir vegi

06.02.2020 - 13:52
Mynd með færslu
 Mynd: Vegagerðin
Miklir vatnavextir fylgja hlýindum og úrkomu sem nú ganga yfir landið. Bæir í uppsveitum Árnessýslu og á Norðurlandi eru umflotnir vatni, og vegir hafa skemmst. Djúpar holur eru í bundnu slitlagi á þjóðvegi eitt á Suðurlandi og fleiri vegum þar.

Ástandið var einna verst seinni partinn í gær og gærkvöldi en vatnavextir virðast hafa náð hámarki í nótt. Þó er enn mikið vatn á láglendi í uppsveitum á Suðurlandi og sömuleiðis á Norðvestur- og Norðurlandi.

Þurftu að sækja ferðamenn á dráttarvél

Vegir eru skemmdir víða á Suðurlandi og bærinn Auðsholt í Hrunamannahreppi einangraðist þegar Litla-Laxá stíflaðist af krapa í gær. Ásdís Bjarnadóttir er húsfreyja í Auðsholti þrjú og hún segir að nú sé aðeins jeppafært heim til þeirra. „Þetta var verst rétt um kvöldmatarleytið í gær, þá voru mestu vatnavextirnir. Dætur mínar eru með ferðaþjónstu og það varð að sækja gesti á traktor í gærkvöldi. Það kom mjólkurbíll hingað í morgun og Sölufélagsbíll og þeir svona rétt komust yfir þetta. Það er náttúrulega alltaf hætta þegar stórgrýti er í þessu, en þeir fóru yfir þetta. En við urðum að keyra skólakrakkana í skólann, því skólabíllinn treysti sér ekki til að fara yfir þetta.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Óðinn Svan Óðinsson
Eyjafjarðará flæðir yfir bakka sína

Þjóðvegur eitt á Suðurlandi mikið skemmdur

Þjóðvegur eitt á Suðurlandi er mikið skemmdur, sem og vegir víðar þar í nágrenninu. Holur hafa myndast í bundnu slitlagi og Ágúst Freyr Bjartmarsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar í Vík, segir mikla vinnu fara í viðgerðir. „Milli Víkur og Hvolsvallar eru mesu klæðningskemmdirnar. Meðan þýða er að koma í jörðina og klakinn er undir, kemdur drulla á milli og myndast bara holur í klæðninguna. Þær skipta tugum holurnar og geta orðið djúpar. Þetta getur valdið miklum skaða, sprengt dekk og skemmt felgur.“ Þá segir Ágúst skemmdir á vegi 221 sem liggur upp að Sólheimajökli. Þar er unnið að viðgerð og áætlað að opna aftur fyrir kl. 16. Ekki hefur frést af vegaskemmdum annars staðar á landinu.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Elsa María Guðlaugs Drífudót
Hvítá flæðir yfir veg hjá Ferjukoti í Borgarfirði

Tún bænda á kafi í vatni og flæðir yfir vegi

Hvítá í Borgarfirði flæðir yfir bakka sína við Ferjukot.  Vatn flæðir þar yfir veginn en hann mun þó vera fær. Í Skagafirði flæða Héraðsvötn yfir bakka sína og tún bænda á stórum svæðum eru þar á kafi í vatni og einhverjir bæir umflotnir. Þar voru starfsmenn vegagerðarinnar að fylgjast með vegum sem fóru á kaf í gærkvöldi og tókst að koma í veg fyrir skemmdir. Láglendi í Eyjafjarðarsveit er víða eins og hafsjór yfir að líta. Klakastíflur eru í Eyjafjarðará og vatn tekið að flæða yfir veginn milli Hrafnagils og Laugalands.

Sumarbústaðir á Suðurlandi umflotnir

Lögreglan á Suðurlandi birti í dag myndir sem sýna Hvítá flæða yfir stórt svæði við Vaðnes. Þar eru sumarbústaðir umflotnir og vegir til og frá þeim á kafi í vatni. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni hefur eitthvað flætt inn í bústaði. Ekki er vitað um skemmdir á þessarri stundu, en líklegt að eitthvað tjón eigi eftir að koma í ljós.