Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

„Báðu um að vera flutt úr landi“

10.12.2015 - 11:51
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Skjáskot
Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar, segir að albanska fjölskyldan, sem flutt var úr landi í nótt, hafi dregið kæru sína til kærunefndar útlendingamála til baka og óskað eftir því að verða flutt úr landi.

Alls voru 27 einstaklingar fluttir af landi brott í gær með flugvél á vegum Frontex, landamærastofnunar Evrópusambandsins.

Aðspurð um af hverju fólkinu hafi ekki verið veitt hæli hér á landi af mannúðarástæðum, svarar forstjóri Útlendingastofnunar: „Nú eru þetta 27 einstaklingar og mjög mismunandi aðstæður hjá hverjum og einum. Ég get ekki farið í niðurstöður einstakra mála, en get hins vegar upplýst um það að þar voru þrjár fjölskyldur sem voru að fara til Makedóníu og tvær til Albaníu. Albaníufjölskyldurnar drógu kærur sína til baka frá kærunefnd útlendingamála eftir að hafa fengið niðurstöðu frá Útlendingastofnun, og óskuðu eftir því að verða flutt úr landi,“ segir Kristín í samtali við fréttastofu.

Könnuðu heilbrigðisþjónustu í heimalöndunum

Í fjölskyldunum voru tvö ung börn með alvarlega sjúkdóma. Ungur drengur frá Albaníu með hjartagalla og annar með svokallaðan slímseigjusjúkdóm. Kristín segir að útlendingastofnun hafi kannað hvort börnin fái viðeigandi heilbrigðisþjónustu í sínum heimalöndum. Báðar fjölskyldur barnanna hafi dregið kærur sínar til baka og óskað eftir að verða fluttar úr landi.

„Útlendingastofnun er óheimilt, samkvæmt alþjóðasáttmálum og flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna, að hafa samband við yfirvöld í heimalandi þess sem sækir um hæli. Hins vegar er í öllum málum, þar sem fólk óskar eftir vernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum vegna heilbrigðisástæðna, þá könnum við mjög vel hvers konar heilbrigðisþjónusta er í boði í viðkomandi ríki, og það var gert í þessum málum eins og öðrum.“

Ráða engu um brottfarartíma

Fólkið var sótt um miðja nótt og hefur sú aðgerð vakið hörð viðbrögð á samfélagsmiðlum. „Flutningur úr landi er á framkvæmd Ríkislögreglustjóra.  Ég hins vegar veit að í þessu tilviki var um að ræða sameiginlegt flug Frontex landamærastofnunarinnar, og við höfum þá ekki í rauninni tök á því að stýra á hvaða tíma vél kemur hingað,“ segir Kristín. „Ég er að gefa mér það að fólk hafi verið sótt á hefðbundnum tíma fyrir flugið. Ef landamærastofnun setur flug segjum klukkan sex eða sjö, þá þarf að sækja fólk þá í tíma fyrir brottfarartíma. Ég hef hins vegar ekki skoðað þetta neitt í þaula.“

Samkvæmt upplýsingum úr innanríkisráðuneytinu er Ólöf Nordal ráðherra stödd erlendis og er væntanleg til landsins síðdegis. Óvíst er hvort hún tjái sig um mál albönsku fjölskyldunnar, sem hefur töluvert verið til umfjöllunar í dag.

Þá er hafin undirskriftarsöfnun á netinu, þar sem þess er krafist að Ólöf beiti sér fyrir því að fjölskyldurnar sem sendar voru úr landi í nótt verði sóttar aftur, ellegar segi hún af sér embætti.