Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Báðir ræningjarnir í haldi lögreglu

23.10.2015 - 11:13
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Báðir mennirnir sem lögregla leitaði að vegna ráns í Gullsmiðjunni í Hafnarfirði síðdegis í gær hafa verið handteknir. Seinni handtakan var snemma í morgun í Reykjavík. Sérsveit lögreglu var kölluð til við báðar handtökur.

Ránsfengurinn hefur ekki fundist og ekki er vitað nákvæmlega hve miklu þeir náðu.

Lögreglan í Reykjavík hefur handtekið tvo menn grunaða um rán í Gullsmiðjunni í Lækjargötu í Hafnarfirði síðdegis í gær. Annar maðurinn var handtekinn árla morguns, en hinn var handtekinn í Reykjanesbæ í gærkvöld, eftir að hafa skotið að lögreglu og lagt á flótta. Lögreglan segir að ef hann hefði hæft lögreglumenn í höfuðið af stuttu færi hefði hann getað stórskaðað þá. 

Rannsókn lögreglu leiddi til þess að lögreglan ásamt sérsveit ríkislögreglustjóra handtók seinni manninn í heimahúsi í Reykjavík. Hann veitti ekki mótspyrnu að sögn lögreglu.

Mennirnir eru Íslendingar um þrítugt. Þeir eiga báðir afbrotaferil að baki. Síðar í dag verður tekin ákvörðun um hvort farið verður fram á gæsluvarðhald yfir mönnunum.

Ræningjarnir, sem voru grímuklæddir og ógnuðu starfsmanni með exi og bareflum, brutu upp hirslur og höfðu á brott með sér umtalsverð verðmæti samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Þeir óku á brott á hvítum jepplingi, sem er talinn vera stolinn frá bílaleigu og á röngum skráningarnúmerum. Lögreglan telur því að þetta hafi verið skipulagt rán. Starfsmann Gullsmiðjunnar sakaði ekki, en honum var  mjög brugðið, að því er fram kemur í frétt frá lögreglunni.