Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Bach í fiskvinnslu í nýju myndbandi Víkings

Mynd með færslu
 Mynd:

Bach í fiskvinnslu í nýju myndbandi Víkings

07.09.2018 - 09:38

Höfundar

Útgáfa Deutsche Grammophon á túlkunum Víkings Heiðars Ólafssonar á tónlist Bachs kemur út í dag. Í nýju myndbandi sem Magnús Leifsson leikstýrir situr Víkingur Heiðar við flygilinn í fiskvinnslu.

Útgáfan er helguð verkum Johanns Sebastians Bachs og hefur að geyma stór og smá hljómborðsverk eftir tónskáldið merka. Þetta er önnur plata Víkings sem kemur út hjá Deutsche Grammophon. Árið 2017 sendi útgáfan frá sér hljómplötu þar sem Víkingur flytur tónverk eftir Philip Glass.

Samtíða útgáfu plötunnar kemur út nýtt myndband sem Magnús Leifsson leikstýrir. Magnús hefur verið stórvirkur í gerð tónlistarmyndbanda síðustu ár, má þar nefna myndbönd við tónlist Of Monsters and Men, Úlfs Úlfs, Emmsjé Gauta og Ólafs Arnalds.

Í nýja myndbandinu er tónlist Bachs sett í óvanalegt samhengi. Í því leikur Friðgeir Einarsson mann sem lætur hugann reika um hvað sé um að vera í heiminum utan fiskvinnslunnar sem hann vinnur í – meðan Víkingur spilar á flygilinn.

Magnús segir að grunnhugmyndin hafi komið frá Víkingi. „Eftir spjall við Víking um Bach og plötuna, tók ég nokkur element frá spjallinu og byggði ofan á þessa grunnhugmynd og bætti við ýmis konar hlutum sem mér fannst virka vel í samhengi við frystihúsið. Til dæmis að fá Friðgeir Einarsson í aðalhlutverk starfsmanns fiskvinnslunnar og að gera Ásbrú í Keflavík að einhverri furðulegri vatnaveröld, þar sem það þykir sjálfsagt að maður spilar á flygil í frystihúsi.“ 

Magnús hefur áður reynt sig við klassíska tónlist þegar hann gerði myndband við eitt af lögunum á The Chopin Project með Ólafi Arnalds. „Það er öðruvísi að gera myndbönd við klassíska tónlist því oft eru kaflaskiptingarnar ekki jafn skýrar eins og til dæmis í rapp- eða popptónlist,“ segir Magnús. „Maður er ekki með þessa sömu sterku afgerandi klippipunkta þar sem hægt er að gjörbreyta stemmingunni í myndefninu líkt og þegar erindi breytist í viðlag.“ Allt skipulagið við gerð myndbandsins er því annars konar segir hann. „Maður þarf aðeins meira að fikra sig áfram í klippiherberginu hvað virkar og hvað virkar ekki með hraðann á klippinu, sem er eiginlega skemmtilegasti parturinn af ferlinu.“

Mynd með færslu
 Mynd:
Friðgeir Einarsson í hlutverki sínu.

Magnús sá samstundis fyrir sér ákveðið flæði í myndefninu þegar hann hlustaði á tónverk Bachs. „Mér finnst svo falleg „cinematísk“ stemmning í laginu,“ segir hann. „Lagið er byggt að einhverju leyti á endurtekningu svo ég vildi hafa myndbandið endurtekningardrifið sömuleiðis. Þannig vildi ég líka að myndbandið myndi endurspegla tónlistina – ástand eða stemmingu sem mallar, frekar en að búa til allt of frásagnardrifna sögu.“

Hljómplatan kom, sem fyrr segir, út í dag. Hægt er að nálgast hana á vef Deutsche Grammophon og á helstu streymisveitum.

Tengdar fréttir

Tónlist

Víkingur spilar tónlist í mynd um Churchill

Klassísk tónlist

Víkingur á úrvalslista The New York Times

Klassísk tónlist

Frumsýning: Víkingur flytur etýðu Philip Glass

Klassísk tónlist

Semur við virt þýskt útgáfufyrirtæki