B-vítamín ver heilann fyrir rýrnun

09.10.2013 - 09:27
Mynd með færslu
 Mynd:
Norskir og breskir vísindamenn telja sig hafa fundið ráð til þess að stöðva Alzheimerssjúkdóminn sem veldur minnisleysi og alvarlegri heilabilun. Með B-vítamíni er hægt að verja heilann fyrir rýrnun af völdum Alzheimers sjúkdómsins.

Niðurstaða nýrrar rannsóknar vísindamanna við háskólana í Osló og Oxford sýnir með því að taka inn B-vítamín sé hægt að draga úr heilabilun og veita vörn svæðum í heilanum sem Alzheimers sjúkdómurinn ræðst gegn. 

Rannsóknin stóð í tvö ár og náði til 200 sjúklinga með væg forstigseinkenni Alzheimers sjúkdómsins. Helmingur sjúklinganna fékk stóra skammta af B-vítamíni en hinir ekki. Í ljós kom að B vítamínið kom í veg fyrir heilarýrnun og þeir sem fengu stóra B-vítamínskamta höfðu 90 prósent minni rýrnun en samanburðarhópurinn, í þeim hlutum heilans sem Alzheimers sjúkdómurinn skemmir.

Helga Refsum, einn af forystumönnum rannsóknarinnar segir að niðurstaðan um áhrif B-vítamínanna á sjúkdóminn sé skýr og ljós og marki tímamót í Alzheimers-rannsóknum. Með henni sé sýnt fram á, sem aldrei hefur verið gert áður, að hægt sé að hægja á eða stöðva sjúkdómsferlið.

Fjallað er um rannsóknina á heimasíðu norska ríkisúrvarpsins NRK og niðurstöðurnar eru birtar í bandaríska vísindaritinu PNAS, Proceedings of the National Academy of Sciences of the United States of America. Vísindamenn segja að niðurstöður rannsóknarinnar gefi vonir um að hægt verði að fyrirbyggja Alzheimers sjúkdóminn eins og suma aðra sjúkdóma, krabbamein og hjarta- og æðasjúkdóma.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi