Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Auknu aflaheimildirnir fari á Vestfirði

05.07.2017 - 09:22
Lilja Rafney Magnúsdóttir - Mynd: Anton Brink / Ruv.is
Ódýrasta aðgerðin til þess að efla byggð og líf á Vestfjörðum er að festa aflaheimildir við byggðalög segir Lilja Rafney Magnúsdóttir þingmaður Vinstri grænna. Hún er eini þingmaðurinn sem býr á Vestfjörðum. Íbúum þar hefur farið fækkandi frá 1980 og þar búa nú 2% þjóðarinnar. 

Lilja Rafney situr í atvinnuveganefnd Alþingis og var gestur Óðins Jónssonar á Morgunvaktinni á rás 1 í morgun. Hún segir að ekki sé hægt að breyta kvótakerfinu á einu ári og því þurfi að horfa til meiri fjölbreytni í atvinnutækifærum. Þau séu vissulega til staðar en að þá þurfi innviðir að spila með og stjórnvöld og sveitarfélög að koma til. 

„Sveitarfélög eru mörg hver illa stödd fjárhagslega vegna lækkandi tekjustigs á svæðinu. En ríkið þarf bara vissulega að spýta í lófana og styrkja heilbrigðis- og menntakerfið og alla innviði, samgöngur og allt þetta sem við höfum verið að tala um svo mörgum sinnum. En samt segi ég að bæði eins og landbúnaður og sjávarútvegur að þetta er samt ennþá ákveðið hryggjarstykki í okkar atvinnuvegi á Vestfjörðum. Og ódýrasta leiðin til þess að hleypa í lífi og spýta í á þessum stöðum er auðvitað bara að festa aflaheimildir, ákveðið magn, við þessi litlu byggðarlög. Og að ríkið hreinlega taki til hliðar eins og aflaaukningu sem var núna, 11 þúsund tonn, og leigi til þessara svæða. Þetta er bara ódýr byggðaaðgerð sem skilar sér strax burtséð frá þessu óréttláta og þunga kvótakerfi, sem ég tel að þurfi að vinda ofan af.“

Ekki fiskeldi í Jökulfirði eða Eyjafjörð

Lilja Rafney er hlynnt áframhaldandi fiskeldi en segir að fara þurfi með gát.  Fljótlega sé von á niðurstöðum starfshóps um umgjörð fiskeldis. Fiskeldið hafi verið mikil lyftistöng á svæðinu og til dæmis sé í fyrsta sinn í langan tíma verið að byggja nýtt húsnæði á Bíldudal og Patreksfirði. 

„Við þurfum að vanda okkur og fara ekki út fyrir þau svæði sem að við teljum að henti fyrir fiskeldið. En ég tel að Jökulfirðirnir og Eyjafjörður eigi ekki til dæmis að vera lagðir undir fiskeldi.“

Þannig að þú vilt leyfa aukið fiskeldi fyrir vestan?

„Ég vil leyfa fiskeldi undir ströngum skilyrðum bæði umhverfissjónarmiða, að firðir fari í burðarþol, hvað þeir þola og að þeir séu hvíldir og að það sé ekki tekin áhætta gagnvart náttúrunni í þeim efnum. Ég tel að við getum smíðað þannig lagaumgjörð að fiskeldið geti verið í sátt við aðra atvinnuvegi og umhverfið og að við getum haft af því tekjur sem að skili sér á svæðið. Og það er auðvitað ákveðin hætta að svona stór fyrirtæki  sem eru í laxeldi taki arðinn og fari með hann út. Og við þurfum að passa upp á það að arðurinn skili sér til heimamanna og uppbyggingu á svæðinu en við megum passa okkur á öllu gullgrafaraæði í þessum efnum.“

6.870 manns búa á Vestfjörðum

Fólki fækkaði á Vestfjörðum í fyrra en það er eini landshlutinn þar sem fólki fækkaði samkvæmt mannfjöldatölum Hagstofunnar. Fólksfjölgun á landinu í heild var 1,8% í fyrra. Síðustu fimm ár hefur fólksfækkun á Vestfjörðum verið 0,5% á ári að meðaltali. Nú búa 6,870 manns á Vestfjörðum eða 2% þjóðarinnar.