Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Aukinn byggðakvóti í Þorlákshöfn

13.11.2015 - 16:08
Mynd með færslu
Mynd úr safni Mynd: Christopher Lund - Hafnarstjórn Þorlákshöfn
Byggðakvóti til sunnlenskra sveitarfélaga eykst um nærri 150 þorskígildistonn á næsta fiskveiðiári. Sunnlenskar hafnir eru fáar, svo þetta þýðir meira en tvöföldun byggðakvóta í sunnlenskum höfnum samanlagt. Aukningin er einkum í Ölfusi, 152 tonn ganga til Þorlákshafnar þar sem enginn byggðakvóti var síðasta ár.

Þorlákshöfn hefur fengið úthlutað byggðakvóta af og til síðustu ár. Hann er reiknaður út frá stuðlum sem miðast meðal annars við breytingar á aflaheimildum og botnfiskvinnslu og breytingar í rækju og skelfiski. Samdráttur í botnfiskvinnslu og aflaheimildum í Þorlákshöfn á síðasta ári getur af sér byggðakvótann nú. Stokkseyri fékk úthlutað 15 tonnum nú en fékk ekkert í fyrra. Til Eyrarbakka er úthlutað 28 tonnum nú, en 40 tonnum í fyrra. Til Hornafjarðar er úthlutað 79 tonnum í stað 87.

Aukning byggðakvóta til sunnlenskra hafna nemur um það bil samanlagðri minnkun byggðakvóta á Suðurnesjum. Þar var kvótinn samanlagt 362 tonn í fyrra, en verður 215 tonn nú. Til Sandgerðis er úthlutað 85 tonnum nú í stað 181 tonns í fyrra. Í Garði verður kvótinn nú 107 tonn í stað 181. Þá er nú úthlutað 23 tonnum til Voga, en þar var enginn byggðakvóti í fyrra.

Samúel Örn Erlingsson
Fréttastofa RÚV