Aukin virkni austan Bárðarbungu

20.08.2014 - 11:11
Mynd með færslu
 Mynd:
Skjálftavirknin norðaustur af Bárðarbungu hefur aukist talsvert í morgun, en á sama tíma hefur dregið úr virkninni nálægt Kistufelli, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni. Tæplega hundrað og sjötíu skjálftar af stærðinni tveir til þrír hafa orðið í Vatnajökli síðustu tvo sólarhringa.

Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur hjá Jarðvísindastofnun HÍ, sagði í morgun að kvika virtist streyma inn í berggang sem sé að myndast á miklu dýpi undir jöklinum.

Jarðvárhópur almannavarna fer nú yfir stöðu mála í norðanvestanverðum Vatnajökli og hópur jarðvísindamanna og fulltrúa Almannavarna fljúga yfir jökulinn í dag í vél Landhelgisgæslunnar, TF SIF, til að meta ástandið og einnig til að kanna hvort enn sé fólk á hættusvæðinu sem var rýmt í gær. Áætlað er að vélin fari í loftið klukkan eitt.

Enn er í gildi hættustig, en því var lýst yfir í gær. Almannavarnir hafa lokað leiðum á hálendinu Norðausturlands, norðan Dyngjufjalla. Einnig nokkrum leiðum upp úr Bárðardal og við Grænavatn. 

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi