
Aukin örorka kvenna fórnarkostnaðurinn
Guðmundur Andri vísaði í nýja skýrslu Eurostat þar sem fram kemur að um fjögur prósent fólks í Evrópu sinni óvinnufærum ættingjum og um þrjú prósent þeirra sem búa á Norðurlöndunum. Vísir.is greindi fyrst frá skýrslunni.
Fjölgun í hópi öryrkja
Þá fjallaði hann um skýrslu Kolbeins Stefánssonar um fjölgun örorkulífeyrisþega hér á landi. Kolbeinn kynnti skýrsluna fyrir allsherjar- og menntamálanefnd í gær.
„Stærsti hluti fjölgunarinnar er tilkominn vegna kvenna á aldrinum 50 til 66 ára,“ sagði Guðmundur Andri og benti á að í skýrslunni kæmi fram að konur væru líklegri en karlar til að hljóta örorku þegar liði á ævina.
Mæðir meira á konum að sinna umönnun
„Mér sýnist augljóst að það sé samhengi á milli þessara tveggja skýrslna því enn er það svo að það mæðir meira á konum að sinna umönnun fjölskyldumeðlima, bæði líkamlega og andlega, og þegar um er að ræða konur sem eru í krefjandi störfum um árabil.“
„Ég sé sem sagt ekki betur en að fórnarkostnaður samfélagsins af því að velta velferðarkerfinu inn á heimilin og inn á fjölskyldurnar sé aukin örorka kvenna,“ sagði Guðmundur Andri. Þá sagði hann einnig áhyggjuefni hversu mikið öryrkjum hefði fjölgað í hópi ungra karlmanna. Það væri sérstakt úrlausnarefni fyrir samfélagið.
Í skýrslu Eurostat kemur fram að Ísland sé með hæsta umsjárhlutfall í Evrópu, þegar tölurnar eru teknar saman, og eina landið sem fer yfir fimmtíu prósent.