Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Aukið fjármagn þýðir nýtt áhlaup á fíknivanda

08.11.2018 - 11:26
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Eftirspurn eftir meðferð á sjúkrahúsið Vog hefur aukist sérstaklega síðustu tvö árin. Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir þar, kallar eftir meira fjármagni frá stjórnvöldum til að hægt sé að anna þessari eftirspurn betur. Stjórnvöld treysti SÁÁ fyrir þjónustunni en þörfin sé æpandi.

„Það er slæmt að þau skuli ekki taka þetta að sér, þegar það er æpandi þörf, þetta er ungt fólk og það er óvirkt. Það getur ekki hugsað um börnin sín eða verið í vinnu. Þetta er stórt og alvarlegt mál - að stjórnvöld skuli ekki sjá alvarleikann í því og mikilvægi þess að fjármagna þetta almennilega,“ segir Valgerður sem var gestur Morgunvaktarinnar á Rás1. 

Hverju mun það breyta í ykkar starfi ef stjórnvöld myndu ákveða að veita ykkur þessar 200 milljónir á ári sem þið teljið ykkur þurfa? „Við getum gert mjög mikið, ef við hefðum aukið fjármagn. Það þýðir fyrst og fremst að við hefðum meira starfsfólk og gætum gert nýtt áhlaup í þessum málum,“ segir Valgerður jafnframt.

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, sagði fyrir skemmstu að það þyrfti augljóslega að bregðast við löngum biðlista á Vogi. Þá telur hún þrufa að skilgreina hvað biðlistar séu og hvað þeir standi fyrir. Valgerður segir að biðlistinn sé skilgreindur í þeim samningi sem unnið er eftir í gegnum sjúkratryggingar. „Það getur vel verið að það þurfi að skilgreina biðlistann öðruvísi eða upp á nýtt. Þá tökum við það í samningum sem eru löngu úreltir. En við höfum ekkert breytt í því, það er bara eins og það var síðast frá ráðuneytinu þegar þessi samningur var gerður við Vog,“ bætir Valgerður við.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV