Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Aukið eftirlit með gasi í Heklu

26.03.2013 - 20:45
Hamfarir · Innlent · Hekla · Suðurland
Mynd með færslu
 Mynd:
Verið er að setja upp gasmæli á Heklu sem gæti gefið vísbendingar um að eldgos sé í aðsigi. Mælingarnar hófust í fyrra, en nú á að koma þar fyrir tækjabúnaði sem stöðugt sendir upplýsingar. Verkefninu var flýtt vegna skjálftanna í Heklu síðustu vikur.

Veðurstofan stendur fyrir þessu verkefni í samstarfi við aðrar stofnanir. Tækjabúnaðurinn sjálfur kemur frá ítölsku jarðeðlis- og eldfjallastöðinni og verður reyndar fluttur upp á Heklu og komið þar fyrir á morgun, fyrr en ella, vegna skjálftanna sem orðið hafa undir fjallinu síðustu vikur.

Mælingarnar hófust í fyrrasumar, en vandamál með ísingu síðasta haust leiddu til þess að stöðin var endurhönnuð og sett í lítið hús. Orkan sem hún notar kemur úr sólarljósi og hitanum úr Heklu og upplýsingarnar verða sendar samfellt á Veðurstofuna og sameinaðar annars konar vöktun á Heklu.

Gasmælingarnar í fyrra gáfu vísbendingar um það sem fræðimenn telja nú nokkuð öruggt - að á 10-15 kílómetra dýpi undir Heklu sé kvikuhólf sem stækki jafnt og þétt. Talið er breytingar á efnainnihaldi gassins úr Heklu geti gefið vísbendingar um það þegar kvika fer að færast nær yfirborði og líkurnar aukast á gosi. Í undanförnum gosum hefur fyrirvarinn verið stuttur, en með þessum upplýsingum gæti hann mögulega lengst.