Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Aukagjöld lækna bitna verst á fólki í fátækt

Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Þeir sem búa við fátækt finna mest fyrir aukagjöldum í heilbrigðisþjónustu sem falla utan við greiðsluþátttökukerfi ríkisins. Þetta segir heilbrigðisráðherra. Hún vonast til að samningar náist við sérfræðilækna og sjúkraþjálfara. Það sé þróun sem ekki sé viðunandi.

Tvö og hálft ár er frá því þak var sett á kostnað sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Inni í því er kostnaður vegna þjónustu á sjúkrahúsum, heilsugæslustöðvum og hjá sjálfstætt starfandi heimilislæknum, sérfræðilæknum, sjúkraþjálfurum o.fl. Þannig greiðir fólk að hámarki rétt tæpar 74 þúsund krónur á ári en ekki meira en 26.100 á mánuði.  Aldraðir og öryrkjar greiða minna sem og þeir sem þurfa mikla heilbrigðisþjónustu. Samningar Sjúkratrygginga við sérfræðilækna og sjúkraþjálfara eru útrunnir og talsvert er um það í báðum stéttum að sjúklingar eru rukkaðir um gjald sem liggur utan greiðsluþátttökukerfisins og því ekki endurgreitt af sjúkratryggingum. Þannig að í reynd er ekki lengur þak á kostnað sjúklinga.

Sækja sér viðbót í vasa sjúklinga

„Mér finnst það ekki gott. Raunar er það þannig að báðar þessar stéttir eru í samningaviðræðum við Sjúkratryggingar Íslands. Þannig að ég held að það gildi ekki um þessar stéttir að þær líti á þetta sem varanlegt fyrirkomulag til framtíðar. En þarna er verið að sækja viðbótina beint í vasa sjúklinga. Ég held að það sé ekki þróun sem við viljum sjá með nokkru móti,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra (V).

„Augljóst að það bitnar mest á þeim sem búa við fátækt og lítil efni þegar það er um það að ræða að sérfræðingar, hvort sem það eru læknar eða sjúkraþjálfarar, taka aukagjald,“ segir Svandís.

Hún vonast til þess að það þokist í samkomulagsátt.

Vill að sjúklingar greiði minna fyrir heilbrigðisþjónustu

Heilbrigðisþing fór fram öðru sinni í dag. Niðurstaða þess verður nýtt ásamt fleiru til að móta þingsályktunartillögu um forgangsröðun í heilbrigðisþjónustunni og einkum þá hvaða gildi eigi að ráða eins og mannúð, siðferði, jöfnuður og fleira.

„Ef við erum t.d. að tala um jöfnuð og jafnræði þá þurfum við að halda áfram að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga og borga fyrir heilbrigðisþjónustuna meira úr sameiginlegum sjóðum,“ segir Svandís.

Þegar hafi verið stigin skref í þá átt með því að fella niður komugjöld aldraðra og öryrkja í heilsugæslunni. 

„Og við erum að fara að stíga fleiri svona skref á næsta ári,“ segir Svandís.

Horft sé til annarra norrænna landa þar sem sjúklingar greiði 15% af heilbrigðiskostnaði.

„Á Íslandi hefur þetta verið um 17 -17,5% eða þar um bil. Þannig að við þurfum að gefa meira í þessa greiðsluþátttöku til þess að draga úr framlagi sjúklinganna sjálfra. Persónulega skoðun mín er að sjúklingar eigi að greiða ennþá lægra hlutfall. Það er að segja sjúklingar eiga að borga ennþá minna,“ segir Svandís.