Fram kemur í úttekt OECD, sem kynnt var fyrr í vikunni, að framleiðni hér á landi er undir meðaltali Norðurlandanna nema í sjávarútvegi og orkufrekum iðnaði eins og álframleiðslu. Sérstaklega er framleiðnin lítil í innlenda þjónustugeiranum.
„Ástæðan er hugsanlega smæð hagkerfisins en líka skortur á samkeppni,“ segir Páll Gunnar. „Það er auðvitað bara verkefnið að efla samkeppni. Við höfum bent á það í mörg ár, sérstaklega frá hruni, að samkeppni sé besta tækið sem við höfum til þess að auka framleiðni í íslensku hagkerfi.“
Hann bætir við að efla megi samkeppnina til dæmis með því að fylgjast mjög grannt með því að fyrirtæki fari að samkeppnislögum. „Eitt af því sem hægt er að gera til að auka samkeppni og þar með framleiðni er að breyta ýmsum lögum og reglum sem nú eru í gildi - og draga úr hindrunum.“
Hindranirnar eru á mjög mörgum sviðum, segir Páll Gunnar, í landbúnaði, skipulagsmálum, samgöngum og verslun svo eitthvað sé nefnt. Lengi hafi verið kallað eftir lagabreytingum og árið 2009 hafi tilmælum verið beint til forsætisráðherra um að koma á svokölluðu samkeppnismati við setningu laga og reglna.
„Ýmis lönd, eins og til dæmis Ástralía fóru fyrir löngu í sérstaka hreinsun á sínu regluverki með þetta í huga og það skilaði mjög miklum árangri. Við, þetta litla land, höfum auðvitað ekki efni á því að standa okkur eitthvað verr en aðrir í þessu.“