Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Augnablik

Mynd með færslu
 Mynd:
Mynd:  / 
Stefanía Svavarsdóttir er flytjandi lagsins Augnablik, höfundur lags og texta er Sveinn Rúnar Sigurðsson.

Flytjandi:

Fullt nafn: Stefanía Svavarsdóttir

Aldur: 22 ára

Fyrri störf í tónlist:  Vann söngkeppni Samfés árið 2008, þá 16 ára.  Eftir það söng ég með Stuðmönnum í 2 ár og gaf út eitt lag með þeim. Hef komið fram með ýmsum listamönnum á alls konar tónleikum og sýningum síðan þá, var í ABBA sýningu í Eldborg 2012 og Bat Out of Hell 2014. Ég tók þátt í Söngvakeppni Sjónvarpsins árið 2013 með Jógvani Hansen. 

Hver er forsaga lagsins: Sveinn Rúnar samdi þetta lag fyrir mig stuttu eftir Söngvakeppnina 2013. Mér leist strax virkilega vel á það.

Höfundur lags og texta:

Fullt nafn: Sveinn Rúnar Sigurðsson.

Aldur: 38 ára

Fyrri störf í tónlistinni og bara yfir höfuð: Læknir / lagahöfundur / píanóleikari / löggiltur verðbréfamiðlari / ferðalangur / fjallageit. Hef samið fyrir innlenda og erlenda flytjendur frá 1996. Ég hef í þrígang átt þrjú lög í Söngvakeppninni, tvisvar tvö lög, og tvisvar eitt lag. Þetta er semsagt fjórtánda lagið mitt í Söngvakeppninni en á meðal annarra laga eru Heaven með Jónsa (Framlag Íslands 2004), Ég les í lófa þínum með Eiríki Haukssyni (framlag Íslands 2007), Hugarró og Ekki líta undan með Magna (2012 og 2013), Útópía með Dísellu (2006) og fleiri. 

Hver er forsaga lagsins: Ég hef lengi fylgst með Stefaníu Svavarsdóttur og hún er án efa eitthvert mesta efni sem hefur komið fram lengi. Ég heyrði fyrst af henni 2011 og árið 2013 samdi ég „Til þín“ sem hún flutti ásamt Jógvan Hansen í söngvakeppninni sama ár. Ég skrifaði síðan fyrir hana þrjú lög seint á síðasta ári, sem er hluti af stóru og metnaðarfullu verkefni sem kemur út á næstu mánuðum. Þetta var eitt þeirra laga og ég sendi það inn til að fá viðurkenningu á því að það væri eitthvað varið í það. Það er orðið mjög erfitt að ná athygli fólks með tónlist og því fannst mér tilvalið að kynna verkefnið á þessum vettvangi. Það horfa jú allir á Söngvakeppnina, hvort sem þeir hata hana eða elska. 

Var lagið samið fyrir Eurovision/Söngvakeppnina: Nei. Enda ekkert sérstaklega júróvisjónlegt (Enginn upphækkun, enginn vindvél). Þetta er bara nútímatónlist, mikið „forritað“ og með elektrónísku ívafi. Ég hef aðeins einu sinni sest niður til að semja „júrólag“. Mér finnst það vera síst allra þeirra laga sem ég hef sent í keppnina og læt það ógert að nefna það. Ég hef hins vegar litið á júró sem einn besta innlenda vettvanginn fyrir tónlistarmenn til að kynna nýtt efni. Mér sýnist svo á keppninni í ár að tónlistarmenn hafi loksins áttað sig á því, enda langflestir höfundarnir / flytjendurnir stórstjörnur hér á norðurpólnum. Því ber að fagna hvað það er orðið kúl að kepp’í júró.

 

Augnablik

Augnablik,

eitt andartak, eitt augnablik,

var sem tíminn stæð’í’stað,

er birtist þar,

þú, ó þú.


Lífið er ljúft en ástin er snúin,

væri það gott

hefðu augu okkar staldrað við og tendrað,

eilítið bál sem logar á ný,

í örlitla stund.

okkar örlaga fund.

Ást eitt augnablik.

 

Augnablik,

eitt andartak, eitt augnablik,

það var sem tíminn stæð´í´stað,

er birtist þar,

þú, ó þú.

 

Lífið er ljóð en ástin er snúin,

væri það gott,

hefðu augu okkar staldrað við og tendrað,

eilítið bál sem logar á ný,

í örskamma stund,

okkar örlaga fund

ást eitt augnablik.

 

Glöð og sár í senn,  

skiljast leiðir,

en mér finnst sem haust hvísli enn,

hve lífið ljúfsárt er,

hvað ef hefðum,

haldið sama veg, þú og ég.

 

Lífið er ljúft en ástin er snúin,

væri það gott

hefðu augu okkar staldrað við og tendrað,

eilítið bál sem logar á ný,

í örskamma stund.

okkar örlaga fund

Ást eitt augnablik.

Þú, ó þú,

Eitt augnablik.