„Augljósar málamiðlanir í sáttmálanum“

30.11.2017 - 18:51
Mynd með færslu
 Mynd: Magnús Atli Magnússon - RÚV
Nýr ríkisstjórnarsáttmáli ber þess merki að flokkarnir þrír hafi greinilega þurft að gera málamiðlanir til að komast að samkomulagi, sér í lagi Sjálfstæðisflokkurinn, að sögn Stefaníu Óskarsdóttur, stjórnmálafræðings. Vinstri Grænum og Framsóknarflokknum hafi tekist ágætlega að koma sínum málum á framfæri.

„Það er augljóst að það eru ýmsar málamiðlanir. Ég held að Vinstri Grænir megi vel við una, flest af þeirra málum virðast ná fram. Það er þó ekki hægt að sjá að áhersla á skatta og eignafólk hafi náð fram að ganga en hins vegar er málamiðlun í því að það á að hætta fjármagnstekjuskattinn og svo auðvitað að stórhækka kolefnagjöldin þannig að VG kemur ágætlega frá þessum viðræðum og sama má segja um Framsóknarflokkinn. Spurning um Sjálfstæðisflokkinn sem virðist hafa gert miklar málamiðlanir.“

Stefanía segir mjög athyglisvert að Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, hafi kallað til utanþingsráðherra í stað þess að notast við þingflokkinn. „Hún hefur skýrt það þannig að ástæðan væri sú að það væri ekki nægilega mikil vissa um stuðning Rósu Bjarkar og Andrésar Inga við ríkisstjórnina sem hefði valdið því að hún hefði leitað út fyrir þingflokkinn eftir styrk vegna þess að það þyrfti á öllum mannskapnum að halda – þeir sem eftir eru öruggir í hennar þingflokki.“

„Hins vegar má nú samt ráða í það sem fram hefur komið fram í viðtölum við hana að það sé nú ekki loku fyrir það skotið að Rósa Björk og Andrés Ingi muni styðja ríkisstjórnina þannig það á nú eftir að koma í ljós. Engu að síður eru þetta mjög mikil þáttaskil að formaður Landverndar sé orðinn umhverfisráðherra og það endurspeglar líka áherslur sem mér finnast vera augljósar í stjórnarsáttmálanum, mörg af þeim áherslumálum Vinstri grænna þau ná þar vel í gegn, meðal annars áherslan á umhverfismál og jafnréttismál.“ segir Stefanía. 

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi