Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Auðvitað eiga allir staðir að vera á kortinu“

18.06.2019 - 15:04
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Nokkur kurr er meðal bæjarbúa í Snæfellsbæ vegna þess að Rif, þéttbýli á norðanverðu Snæfellsnesi, fékk ekki að vera með á ferðaþjónustukorti Markaðsstofu Vesturlands sem gefið er út fyrir sumarið. Margrét Björk Björnsdóttir, forstöðumaður markaðsstofunnar, segir málið á misskilningi byggt.

Fulltrúar sveitarfélagsins eru síður en svo sáttir við þennan ráðahag. Markaðsstofan sé rekin af öllum sveitarfélögunum á Vesturlandi þar sem eru 15 þéttbýliskjarnar og þau eigi auðvitað öll að vera með.

„Auðvitað eiga allir þéttbýlisstaðir að vera á kortinu,“ segir Lilja Ólafsdóttir bæjarritari í samtali við fréttastofu. Hún segist aðspurð ekki vita hvort þetta muni hafa fjárhagsleg áhrif á Rifi. „En við erum ekki sátt við að þetta sé gert með þessum hætti.“

Í samtali við fréttastofu segir Kristinn Jónasson, bæjarstjóri í Snæfellsbæ, ætla að ræða við Margréti Björk í dag enda hafi hann fengið kvartanir inn á sitt borð vegna þess að Rif hafi vantað á kortið.

Leikhúsið Frystiklefinn á Rifi sagði frá því að Rif hafi vantað á kortið á Facebook-síðu leikhússins um helgina. Þar er dregin sú ályktun að Rif sé ekki á kortinu því Frystiklefinn hafi ekki keypt auglýsingu á kortinu. „Afskaplega leiðinlegt að heilt þorp hafi þurft að líða fyrir það að við vildum ekki borga fyrir auglýsingu. Rif er samt ennþá partur af Vesturlandi og því frekar lélegt að götukortið af þorpinu hafi verið strokað út,“ segir í færslunni.

Markaðsstofa Vesturlands birti svo færslu á Facebook-síðu sinni í dag og sagt frá því að kortið af Vesturlandi sem um ræðir sé eitt þriggja sem gefin eru út. Reynt sé að hafa götukort af þeim stöðum sem hafa flesta samstarfsaðila í útgáfu kortanna.

Þegar fréttastofa náði tali af Margréti Björk var hún nýkomin af fundi með Kára Viðarssyni, leikhússtjóra í Frystiklefanum. „Við sátum og drukkum kaffi og ræddum málin,“ segir Margrét. Spurð hvort þau hafi skilið sátt eftir fundin segir hún að þau hafi fallist í faðma. „Við komumst ða því að þetta hefði verið á misskilningi byggt.“

„Á bakhliðinni á borðkortinu eru götukort af átta þéttbýliskjörnum á Vesturlandi, þar sem ekki er pláss fyrir fleiri, þó að hægt sé að telja allt að 15 þéttbýliskjarna á Vesturlandi,“ segir í færslu markaðsstofunnar. Á hinum kortunum tveimur eru nákvæmari myndir og götukort af öllum þéttbýliskjörnum á Vesturlandi.

Margrét segir að það sé takmarkað pláss á kortinu sem prentað er á örk í A3 stærð. Rif hafi verið á kortinu í fyrra en ákveðið hafi verið að skipta götukorti af bænum út í ár fyrir Hvanneyri, vegna þess að þar eru leiðir flóknari.

 

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV