Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Auðveldasta leiðin til að stöðva smálán

06.05.2019 - 08:31
úr umfjöllun Kveiks um smálán.
 Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson
Auðveldasta leiðin til að stöðva smálánafyrirtæki er að láta vanskilin enda fyrir dómstólum, segir segir Hákon Stefánsson, frá Creditinfó Group. Hvorki þeir sem taka smálán né smálánafyrirtæki hafa látið innheimtumál fara fyrir íslenska dómstóla. Fyrirtækin eru dönsk en bjóða íslenskum neytendum smálán. 

„Yirvöld hafa vissulega ákveðin úrræði og eftirlitsaðilar. En þegar starfsemin er á netinu og í öðru landi þá kann það að vera ansi erfitt að stöðva þetta fyrir hið opinbera alla vega. Auðveldasta leiðin til þess að stöðva þetta er fyrir lántaka sem hafa tekið lán er að neita því að greiða eða sinna ekki innheimtubréfum frá þessum aðilum. Eða hugsanlega borga eingöngu höfuðstólinn,“ segir Hákon.

Enginn hafi látið á þetta reyna fyrir íslenskum dómstólum. 

„Hvorki lánveitandinn né skuldarinn. Lánveitendur vita líklegast upp á sig sökina. Ef lántakinn borgar ekki af láninu þá gera lánveitendur ekki neitt. Lántakinn þekkir sjaldnast sína réttarstöðu og hefur oft ekki greiðslugetu,“ segir Hákon.

„Samkvæmt mínum skilningi þá er það þannig að ekkert af þessum málum sem hafa verið innheimt fyrir þetta fyrirtæki sem er staðsett í Danmörku, hafa farið fyrir íslenska dómstóla. Hefðbundin inmheimtumál eru þannig, og vanskilamál, að þau fara fyrir íslenska dómstóla ef ekki er af þeim greitt,“ segir Hákon.

„Ef lánveitandinn stundar það að lána til íslenskra neytenda peninga og lánið er með þeim hætti að það brýtur í bága við íslensk lög, þá eru það ekki mistök lánveitandans að lána fjárhæðir þar sem árleg hlutfallstala kostnaðar mælist í þúsundum prósenta, heldur er augljóst að þetta er gert af ásettu ráði. Þannig að slíkur lánveitandinn ef hann ætlar að innheimta málið með aðstoð dómstóla, hann myndi í fyrsta lagi að ég tel ekki fá dæmdan málskostnað. Mér finnst mjög ólíklegt að hann gæti innheimt nokkurn kostnað af skuldaranum. Skuldaranum yrði einfaldlega gert að greiða höfuðstól lánsins ekki einu sinni þennan löglegan kostnað sem íslensk lög heimila,“ segir Hákon.