Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Auður, Hildur og Ragnar verðlaunuð

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Auður, Hildur og Ragnar verðlaunuð

08.02.2017 - 20:25

Höfundar

Ör eftir Auði Övu Ólafsdóttur, Vetrarhörkur eftir Hildi Knútsdóttur og Andlit norðursins eftir Ragnar Axelsson hljóta íslensku bókmenntaverðlaunin í ár en þau afhenti Guðni Th Jóhannesson við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í kvöld.

Í flokki fagurbókmennta var það skáldsagan Ör eftir Auði Övu Ólafsdóttur sem hlaut verðlaunin. Í henni segir frá Jónasi Ebeneser, 49 ára fráskilnum, valdalausum og gagnkynhneigður karlmanni. Gagnrýnandi Viðsjár sagði um bókina að hún væri „listilega vel skrifuð, áferðarfalleg og djúpvitur, og tekur á málefnum sem höfða til samvisku lesandans.“ Auðar Ava ræddi Ör í viðtali við Egil Helgason fyrr í vetur en hún hefur áður skrifað skáldsögur, leikrit, ljóð og er einnig textahöfundur poppsveitarinnar Milkywhale.

Mynd: RÚV / Kiljan

Hildur Knútsdóttir hlýtur verðlaunin í flokki barna- og ungmennabóka fyrir Vetrarhörkur, sögu af íslenskri fjölskyldu sem kemst lífs af eftir árás geimvera sem eru sólgnar í mannakjöt. Bókin er framhald bókarinnar Vetrarfrí en fyrir hana hlaut Hildur Fjöruverðlaunin í flokki barna- og unglingabóka og var einnig tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar.

Mynd með færslu
 Mynd:

Í flokki fræðirita og bóka almenns efnis var það ljósmyndabókin Andlit norðursins eftir Ragnar Axelsson sem bar sigur úr býtum. Í bókinni eru áður óbirtar ljósmyndir frá Íslandi, Færeyjum og Grænlandi og sögurnar á bak við þær. Þar skyggnist Ragnar yfir ævistarf sitt sem ljósmyndara og reynir að skrá líf og störf íbúa norðurslóða og þær breytingar sem orðið hafa á umhverfi þeirra og samfélagi. 

Mynd: Ragnar Axelsson.

Úr bók Ragnars Axelssonar, Andlit norðurslóða.

Alls hafa 66 hlotið íslensku bókmenntaverðlaunin sem afhent voru í 28. sinn í kvöld. Þetta er í fjórða sinn sem verðlaunað er í flokki barna-og unglingabóka. 

135 titlar frá 36 útgefendum komu til álita í ár. Fimmtán bækur voru tilnefndar þann fyrsta desember, fimm í hverjum flokki. 

Verðlaunahafi í hverjum flokki hlýtur eina milljón króna í verðlaunafé. 

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Hildur verðlaunuð fyrir Vetrarhörkur

Bókmenntir

Auður verðlaunuð fyrir Ör

Innlent

Ragnar verðlaunaður fyrir Andlit norðursins

Bókmenntir

Íslensku bókmenntaverðlaunin afhent