Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Auðstéttin fái ekki að arðræna fólk

Mynd með færslu
 Mynd:
Alþýðufylkingin opnaði kosningamiðstöð sína í dag og kynnti málefnaáherslur sínar. Flokkurinn stefnir að framboði í Alþingiskosningum í vor undir listabókstafnum R.

Það var í nógu að snúast hjá Þorvaldi Þorvaldssyni formanni Alþýðufylkingarinnar og félögum hans áður en fyrsti blaðamannafundurinn hófst. Það er ekki hægt að kalla þetta fjöldaflokk enn sem komið er. Þorvaldur var í stjórn og flokksráði vinstri grænna um árabil og þar áður í ýmsum vinstrihreyfingnum. Hann segist vera kommúnisti og sagði sig úr Vinstri-grænum á dögunum vegna óánægju með flokkinn og ríkisstjórnina.

„Við viljum tryggja að það verði vinstri valkostur í kosningunum í vor,“ segir Þorvaldur. „Ég held að það sé upplifun flestra að Vinstri-græn séu ekki lengur vinstriflokkur og þar með sé engin skipulögð vinstrihreyfing hér á landi og við viljum auðvitað bæta úr því.“

Það er óhætt að segja að það sé baráttuhugur í Þorvaldi. Alþýðufylkingin styðst við gamalkunnug slagorð úr austri. Á veggspjaldi mátti lesa „Öreigar allra landa sameinist“ og leggur Þorvaldur áherslu á vinstristefnu í starfi flokksins. „Ekki bara með einhverjum svona sýndarbreytingum í skattkerfinu heldur það að við sækjum okkar bættu lífskjör með því að skerða möguleika auðstéttarinnar til að arðræna okkur. Það er kjarni málsins.“

Áhugi fjölmiðla á framboðinu er ekki mikill, einn ljósmyndari mætti auk RÚV. „Við getum ekki annað en sigrað í þessum kosningum,“ segir Þorvaldur og hlær. „En ég held nú að það verði ekkert þaggað niður í okkur til lengdar samt sem áður.“