Athugið þessi frétt er meira en 12 ára gömul.

Auðkenni RÚV sameinuð í einu merki

01.04.2011 - 11:15
Mynd með færslu
 Mynd:
Kennimörk RÚV, Sjónvarpsins, Rásar 1 og Rásar 2 hafa verið sameinuð undir einu sterku auðkenni. Fyrir valinu varð hið góðkunna merki Sjónvarpsins í uppfærðri útgáfu.

Eitt merki hefur þann kost að vera sameiningartákn allrar starfsemi fyrirtækisins og skerpa ásýnd þess en merkin voru fjögur áður. Kannanir sýna einnig að flestir landsmenn tengja heitið RÚV við Sjónvarpið. Því var ákveðið að hið nýja merki Sjónvarpsins yrði RÚV í rauðum lit en regnhlífin RÚV í bláum lit.

Fjölmargar vörumerkjamælingar sýna að Sjónvarpsmerkið er eitt sterkasta vörumerki landsins og því þótti skynsamlegt að halda því. Hönnuðir kusu til dæmis merkið besta vörumerki landsins árið 2009. Um leið og hið nýja merki tekur gildi eru gerðar breytingar á ásýnd og útlit miðla RÚV og voru þær unnar samhliða merkisbreytingunni. Hér má nefna nýtt vefútlit og fréttasett. Stillimyndin hverfur einnig við taka skjámyndir með dagskrárkynningum, myndir úr vefmyndavélum Mílu, frá útsendingum úr hljóðstofu og fleira.

Höfundur kennimarks Sjónvarpsins, Gísli B. Björnsson, hannaði merkið upphaflega fyrir Ríkisútvarpið-Sjónvarp á árunum 1965-1966 og var hann með í að endurhanna merkið nú. Hið nýja merki tók formlega gildi fyrir RÚV og miðla þess í gær, fimmtudaginn 31. mars.