Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar samþykkir sameiningu

18.11.2019 - 14:08
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tillaga um sameiningu Eyþings, Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga og Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar var samþykkt á aðalfundi þess síðastnefnda á Dalvík í dag. Eyþing hefur þegar samþykkt tillöguna og hún verður tekin fyrir hjá Þingeyingum á morgun. Verði sameining samþykkt tekur nýtt félag taka til starfa 1. janúar.

Stýrihópur hefur leitt vinnuna

Skömmu eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar var settur á laggirnar stýrihópur sem leitt hefur vinnu sveitarstjórna um sameiningu. Í hópnum eru Hilda Jana Gísladóttir, bæjarfulltrúi á Akureyri, Elías Pétursson, sveitarstjóri í Langanesbyggð, og Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar.

Með nýju sameinuðu félagi verður áhersla lögð á að efla Norðurland eystra sem eina heild. Starfsstöðvar verði fjórar en aðalskrifstofa félagsins verður á Húsavík.

Kostir og gallar við sameiningu

Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri gerði árið 2017 greinargerð um helstu kosti og galla sameiningar. Þar kemur meðal annars fram að stofnanafyrirkomulag á Norðurlandi eystra sé frábrugðið öðrum landshlutum, enda eru tvö atvinnuþróunarfélög á starfssvæði einna landshlutasamtaka. Kostir við sameiningu, að mati sveitarstjórnarfólks, gætu verið aukinn slagkraftur, samlegðaráhrif, hagræðing og fleira. Nokkrir gallar hafa verið nefndir, þar á meðal að áherslan yrði of mikil á Akureyri, þekking gæti tapast með fækkun starfsfólks, starfssvæðið sé of stórt og að svæðin austan og vestan Vaðlaheiðar séu of ólík.