Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Atvinnulíf í Grímsey of einhæft

16.10.2019 - 16:45
Mynd með færslu
 Mynd:
Aukin óvissa er um byggð í Grímsey eftir að allt hlutafé sjávarútvegsfyrirtækisins Sigurbjarnar ehf. var selt. Níu manns starfa að jafnaði hjá fyrirtækinu. Um fimmtán manns verða með vetursetu í eynni á komandi vetri.

Grímseyingar reiða sig að mestu leyti á sjávarútveg  og því er salan mikil blóðtaka fyrir byggðina. Þá hefur íbúum fækkað mikið seinustu ár. Í fyrravetur voru um 30 manns í eynni yfir veturinn. Ekkert skólahald verður í Grímsey í vetur.

„Mér sýnist á öllu að það verði nú innan við fimmtán manns þarna í vetur, að minnst kosti fyrri part vetrar,“ segir Segir Helga Íris Ingólfsdóttir, verkefnastjóri átaksins Glæðum Grímsey, sem er ætlað að snúa við íbúaþróun í eynni. Hún segir þó að Grímseyingar séu ýmsu vanir sé þetta mikið högg.

„Vissulega er þetta erfitt fyrir svona lítið samfélag að takast á við. Samfélag sem var í svona þröngri stöðu til að byrja með“.

Sjávarútvegur einn og sér tryggir ekki búsetu

Mattias Kokorsch, fagstjóri í sjávarbyggðafræði við Háskólasetur Vestfjarða hefur fengist við rannsóknir á litlum sjávarbyggðum á Íslandi. Hann segir að atvinnulífið í Grímsey sé of einhæft til að viðhalda byggð þar.

„Grímseyingar hafa reitt sig á  sjávarútveg um langt skeið. Þróunin er sorgleg fyrir íbúana en kemur samt ekki á óvart. Fiskveiðikerfið er þannig úr garði gert að það gerir kröfu um arðbærni og er miðstýrt. Grímsey er aðeins eitt dæmi um samfélag sem er ógnað af þessum völdum, og er ekki það seinasta,“ segir Mattias.

Hann segir að rannsóknir hans hafi sýnt að í öðrum sjávarþorpum sé ekki nóg að hafa fiskveiðar til að tryggja búsetu. Fólk hafi einnig áhuga á annars konar störfum, sérstaklega konur. Hann segir að erfitt sé að byggja upp aðra atvinnustarfsemi en fiskveiðar í Grímsey en 
ekki ómögulegt. Fólki sé að fækka og fjarlægðin sé mikil frá öðrum samfélögum.