Atvinnuleysið í febrúar var 5 prósent

26.03.2020 - 09:23
Startup Stock Photos

Fólk fundar við viðarborð.
 Mynd: Stocksnap.io
Um 10.300 manns voru atvinnulausir í febrúar, samkvæmt árstíðarleiðréttum tölum vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofunnar. Það jafngildir um 5 prósent af vinnuaflinu. Atvinnuþátttaka var 80,4 prósent á meðan árstíðarleiðrétt hlutfall starfandi var 77,5 prósent

Þegar hlutfall atvinnulausra er borið saman við febrúar í fyrra  má sjá að atvinnuleysi hefur aukist um 1,8 prósentustig og hlutfall starfandi lækkað yfir sama tímabil um 2,1 prósentustig.

Tekið er fram í frétt á vef Hagstofunnar að tölur fyrir febrúar 2020 séu bráðabirgðatölur þar til fyrsta ársfjórðungi lýkur.

Fyrsta COVID-19 smitið var staðfest föstudaginn 28. febrúar og atvinnumarkaðurinn breyst gríðarlega frá þeim tíma vegna þeirra aðgerða sem stjórnvöld hafa ráðist í til að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar. Því má búast við að atvinnuleysistölur fyrir mars verði mun hærri en þær eru fyrir febrúar. 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi