Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Atvinnuleysi mest meðal ungs fólks

22.06.2017 - 09:15
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Atvinnuleysi var 5,3 prósent í maí, samkvæmt nýrri vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands og hækkar um rúm tvö prósentustig milli mánaða. Af öllum atvinnulausum voru tæp 62 prósent á aldrinum 16-24 ára en atvinnleysi í þeim hópi mældist 17,6 prósent.

Í maí voru að jafnaði 203.900 manns á aldrinum 16-74 ára á vinnumarkaði, sem jafngildi 85 prósent atvinnuþátttöku þjóðarinnar.  Atvinnuleysi meðal karla var 5,7 prósent samanborið við 4,9 prósent hjá konum. 

Atvinnuleysi mældist 3,2 prósent í apríl og atvinnuleysi þá sömuleiðis mest hjá ungu fólki. Algengt er að atvinnuleysið aukist hjá ungmennum á vorin þegar skólafólk leitar sér að vinnu. Í frétt á vef Hagstofunnar kemur fram að atvinnuleysi sveiflist nokkuð milli mánaða vegna árstíðabundinna þátta. Með því að leiðrétta atvinnuleysi fyrir slíkum þáttum var atvinnuleysi 3,2 prósent í maí.