Atvinnuleitendur fá desemberuppbót

29.11.2018 - 12:43
Mynd með færslu
 Mynd: skjáskot  - RÚV
Atvinnuleitendur á skrá hjá Vinnumálastofnun fá greidda desemberuppbót. Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra skrifaði undir reglugerð þess efnis í gær. „Þetta gerir ráð fyrir því að óskert desemberuppbót verði 81 þúsund krónur .Atvinnuleitendur með börn á framfæri fá auk þess sérstaka uppbót fyrir hvert barn sem er yngra en átján ára. Þetta er með sambærilegum hætti og verið hefur og það er gríðarlega ánægjulegt að geta tryggt þetta,“ segir Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra.

Félagsmálaráðherra hefur heimild til að koma á reglugerð um desemberuppbót frá ári til árs en fréttir af uppbót til atvinnuleitenda bárust tíunda nóvember í fyrra. „Þetta hefur bara tekið lengri tíma að tryggja og ganga frá því að við hefðum fjármagn í það. Ég vonast engu að síður til þess að þetta getir greiðst út strax og farið strax í vinnslu því reglugerðin fer strax í birtingu í dag,“ segir Ásmundur.

Fyrirkomulagið, að uppbótin sé samþykkt frá ári til árs, skapi óvissu. „Við höfum auðvitað í sögunni dæmi um að þetta hafi ekki verið greitt þannig að vissulega skapar það óvissu.“

Þá samþykkti ríkisstjórnin á dögunum að umsækjendur um alþjóðlega vernd fá greidda desemberuppbót eins og undanfarin ár, fyrir alls 5,6 milljónir króna, eins og fram kemur í tilkynningu.

Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi