Áttundi tími barna í dagvistun mögulega niðurgreiddur

26.11.2019 - 13:43
Mynd með færslu
 Mynd: Af Facebook-síðu Ingibjargar - RÚV
Öll börn á Akureyri ættu að komast á leikskóla við 12 mánaða aldur haustið 2021. Formaður fræðsluráðs segir mögulegt að áttundi tími allra barna í dagvistun verði niðurgreiddur eftir áramót.

Starfshópur var skipaður til að vinna að leiðum til að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla í janúar. Stefna allra flokka í bæjarstjórn Akureyrar er að börnum standi til boða leikskólavist eða annað úrræði við lok fæðingarorlofs.

Stefnt að haustinu 2021

Ingibjörg Ólöf Isaksen formaður fræðsluráðs Akureyrar er í starfshópnum sem skilaði nýlega af sér skýrslu. Hún segir að með Klöppum, sem er vinnuheiti á nýjum leikskóla við Glerárskóla, takist mjög líklega að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla. Það sé þó bundið við að ríkið lengi fæðingarorlof í 12 mánuði.

Verið er að hanna Klappir. Stefnt er á að bygging hans verði boðin út í febrúar og að hann verði tekinn í notkun haustið 2021. Á leikskólanum verða sjö deildir, þar af þrjár ungbarnadeildir, og pláss fyrir 144 börn.

Nauðsynlegt að taka börn oftar inn á leikskóla

Ingibjörg segir að það sé mikilvægt að taka börn inn á leikskóla oftar en einu sinni á ári. Nú er aðeins innritað á haustin en hópurinn sjái fyrir sér að hægt sé að innrita tvisvar á ári í hverja ungbarnadeild. Þá náist allt að sex innritanir á ári og börnin komist þá sem næst 12 mánaða aldri á leikskóla.

Kostnaður við dagvistun og leikskóla verði sá sami

Í haust voru teknar upp 10 þúsund króna mánaðarlegar niðurgreiðslur til foreldra barna sem hafa náð 16 mánaða aldri og ekki fengið pláss á leikskóla. Er þessum greiðslum ætlað að minnka mun á kostnaði milli dagvistunar og leikskóla. Ingibjörg segir að hópurinn leggi til að áttundi tími allra barna hjá dagforeldrum verði niðurgreiddur, þá verði kostnaður við dagvistun hér um bil á pari við leikskóla.

Þessi niðurgreiðsla segir Ingibjörg Ólöf að sé inni í fjárhagsáætlun hjá fræðusluráði núna. Seinni umræða fjárhagsáætlunar verði í næstu viku. „Verði hún samþykkt förum við að vinna að þessu og þá geta þessar niðurgreiðslur hafist í janúar.“ 

Þokast í rétta átt

Síðustu ár hefur verið erfitt að koma börnum að í dagvistun og dæmi um að fólk flytji í burtu vegna þess. Ingibjörg segir að allt horfi nú til betri vegar og staðan á Akureyri sé góð eins og er. Markmiðið sé að geta boðið 17 mánaða gömlum börnum leikskólapláss á haustin en í haust hafi verið hægt að bjóða 16 mánaða gömlum börnum pláss. Laus rými séu á leikskólunum svo þeir hafi svigrúm til að taka á móti börnum sem flytja í bæinn. Þá séu líka laus pláss hjá dagforeldrum.  

 

 

Úlla Árdal
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi