Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Áttu að stöðva sölu hvalabjórs

08.10.2014 - 14:32
Mynd með færslu
 Mynd:
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið staðfesti í dag þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Vesturlands frá í janúar að stöðva sölu og innkalla hvalabjór sem brugghúsið Steðji framleiddi. Ekkert verður þó af því að bjórinn verði innkallaður. Hann seldist upp eftir að ráðherra leyfði söluna.

Brugghúsið Steðji í Borgarfirði hóf framleiðslu á hvalabjór og hugðist setja hann í tímabundna sölu á þorranum. Þorrabjór mátti aðeins selja frá 24. janúar til 24. febrúar í ár. Heilbrigðiseftirlit Vesturlands taldi hins vegar að óheimilt væri að selja bjórinn, það væri vegna þess að mjöl úr hval hefði verið notað til framleiðslu hans. Slíkt sagði eftirlitið að væri ekki heimilt þar sem Hvalur hf., sem sá Steðja fyrir mjöli væri ekki með leyfi til notkunar hvalmjöls til manneldis. Heilbrigðiseftirlitið ákvað því 14. janúar síðastliðinn að banna sölu bjórsins og innkalla það sem komið væri í verslanir.

Eigandi Steðja var ósáttur við ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins og lagði inn stjórnsýslukæru og óskaði þess að réttaráhrifum ákvörðunar Heilbrigðiseftirlits Vesturlands yrði frestað meðan málið væri til afgreiðslu. Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, heimilaði sölu bjórsins meðan málið væri til athugunar. Bjórinn seldist upp á fyrstu dögum sölutímabilsins, rúmum átta mánuðum áður en atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið úrskurðaði um hvort sölubannið skildi standa eður ei. 

Í dag komst ráðuneytið svo að niðurstöðu. Þar segir að Hval hf. hafi ekki verið heimilt að afhenda Steðja hvalmjöl til bjórframleiðslunnar. Þrátt fyrir það telur ráðuneytið að Steðji hafi gætt að því að hvalabjórinn væri öruggur til neyslu en bendir á að Steðji hefði einnig átt að fara að lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Þar sem þetta var ekki gert hafi Heilbrigðiseftirliti Vesturlands borið að stöðva sölu og innkalla hvalabjór. Ráðuneytið tekur þó fram að heilbrigðiseftirlitið hafi ekki gætt að ákvæðum stjórnsýslulaga um að rannsaka með fullnægjandi hætti hvaða ákvæði laga Steðji hafi brotið. Þessir annmarkar á afgreiðslu heilbrigðiseftirlitsins breyti þó ekki niðurstöðunni, að stöðva hefði átt söluna.

[email protected]