Átti mér þann draum að breyta stjórnmálunum

Mynd: Anton Brink / Ruv.is
Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi ráðherra og þingmaður, er stjórnarformaður alþjóðlegra samtaka kvenna í stjórnmálum sem halda heimsþing í Reykjavík í haust. Hún segir að sér hafi liðið eins og gesti í stjórnmálunum, þar sem stöðugt væri verið að segja „svona hefur þetta alltaf verið.“ Hún segir að lekamálið hafi fengið mikið á sig og henni hafi fundist hún hafa brugðist. Hún telur jafnframt að stjórnmálakonur í hremmingum séu meðhöndlaðar öðruvísi en karlar í sömu stöðu.

Fyrsta heimsþing kvenleiðtoga verður haldið hér á landi í nóvember og næstu fjögur ár. Samtökin Women Political Leaders Global Forum efna til þingsins í samstarfi við íslensk stjórnvöld og nokkur fyrirtæki. Samtökin eru alþjóðlegt tengslanet kvenna í stjórnmálum og er búist við 350 konum frá allt að 100 löndum. Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi ráðherra og þingmaður, og stjórnarformaður samtakanna, var í viðtali við Samfélagið á Rás 1 í dag.

Mikilvægur vettvangur

Yfirskrift hátíðarinnar næstu fjögur árin er We Can Do It, og eins og titillinn gefur til kynna er áherslan á að hægt sé að ná fram breytingum. „Ég er alltaf að leiðrétta þann misskilning að við séum himnaríki á jörðu þegar kemur að jafnréttismálum. En við eigum samt sögu sem segir að þetta sé hægt. Það er hægt að ná miklum árangri og það er hægt að gera það á líftíma kvenna,“ segir Hanna Birna um þingið.

Í samtökunum eru allar þjóðkjörnar konur og Hanna Birna varð stjórnarformaður þeirra 2016 þegar hún hætti í stjórnmálum. „Ég þekkti það eins og hver önnur þingkona hversu mikilvægt það er að skapa svona vettvang fyrir konur sem eru í þessum karllæga heimi, til þess að tala saman um hlutina.“

Valdið er miðaldra karlmaður í jakkafötum

Hanna Birna hefur áður sagt að sér hafi oft liðið eins og gesti í stjórnmálunum, að hluti af veruleika kvenna sé endalaus áminning um að þær séu konur, eigi að gegna ákveðnu hlutverki og vera á ákveðnum stað. „Þegar ég segi þetta er ég ekki að gagnrýna karlmenn, ég er að reyna að útskýra að veruleikinn er sá í heiminum í dag að tuttugu prósent þingmanna eru konur. Sjö prósent forsætisráðherra og forseta í heiminum eru konur. Rúmlega tíu prósent ráðherra í heiminum eru konur. Hlutföllin í atvinnulífinu eru alveg eins. Þessi veruleiki einn og sér gerir það að verkum að við erum gestir. Þessi veröld er ekki orðin okkar. Við erum gestir í karlamenningu, í umhverfi sem hefur verið mótað af þeim í langan tíma. Og það skilur þetta enginn karl fyrr en hann fer inn í umhverfi þar sem hann er einn á meðal kvenna stöðugt.“

Hanna Birna hefur hitt flesta kvenleiðtoga heimsins í störfum sínum fyrir samtökin á undanförnum árum og rætt við þær um þessi mál. „Næstum hver einasta kona sem ég hef hitt segir, ég get ekki útskýrt þennan kynjafaktor. Hann hefur endalaus áhrif á störf mín, á skynjanir fólks gagnvart mér og svo framvegis. En það er bara vegna þess að þessi heimur er óvanur okkur. Valdið í hefðbundnum skilningi er bara miðaldra karlmaður í jakkafötum með dimma rödd. Það er vald í hausnum á fólki, líka hjá okkur konum.“

Svona hefur þetta alltaf verið

Hanna Birna segir að helsta eftirsjáin við stjórnmálaferilinn sé að hún hafi ekki haft hugrekki til að tala hreint út um þessa hluti. „Ég sá ekki að ég gæti gert það á sama tíma og ég var að reyna að ná árangri í stjórnmálum, ef ég hefði verið konan sem var alltaf kvartandi yfir því að vera kona. Þrátt fyrir að ég væri eiginlega eina konan, stjórnmál snúast rosalega mikið út á að það sé ein kona. Lengi vel var hægt að benda á Þorgerði, eða Hönnu Birnu, eða Sólveigu Pétursdóttur, eða Ingibjörgu Sólrúnu. Ef ég hefði verið sú sem væri að kvarta yfir því, þá hefði ég ekki náð þeim framgangi sem ég náði.“

„Ég upplifi það að ég kem inn í umhverfi þar sem er stöðugt verið að segja við mig: „svona hefur þetta alltaf verið. Hanna Birna, við vinnum ekki með andstæðum flokkum eins og þú ert að gera. Þessi samræðu-samstöðu pólitík, hún er ekki okkar pólitík“,“ segir Hanna Birna um reynslu sína. „Ég fann alltaf frá byrjun að veruleikinn var ekki eins og ég hefði viljað gera. Ég átti mér þann draum að breyta stjórnmálunum. [..] En væntingar mínar um að gera hlutina öðruvísi gengu ekki eftir útaf menningunni. Það er þess vegna sem ég segi ‚ég var gestur‘, leikreglurnar á borðinu voru ekki mínar leikreglur.“

Það er mikilvægt að hvetja konur til stjórnmálaþátttöku á réttum forsendum, reyna ekki að fegra hlutina heldur að konur viti hvað þær eru að fara út í, segir Hanna Birna, sem hvetur konur einnig til að treysta innsæinu. „Hættu að trúa því sem er alltaf sagt í stjórnmálum, að þú eigir að gera þetta eins og hefur alltaf verið gert. Það er búið að telja konum pínu trú um það að tilfinningasemi þeirra sé þeim fjötur um fót. Konur eiga að leyfa þessu innsæi að blómstra, fylgja því eftir og finna að það er staður fyrir það í stjórnmálum. Stjórnmálin þurfa þetta innsæi. Og í þriðja lagi myndi ég segja við konur, og ég vildi að ég hefði getað sagt við mig þegar ég var 25 ára, slappaðu af!“

Konur afklæddar mennskunni

Konur í stjórnmálum eiga það til að taka alla gagnrýni mun meira nærri sér en karlar, segir Hanna Birna. Það sé þrisvar sinnum algengara að konur segi af sér í stjórnmálum en karlar og þær endist miklu skemur en þeir í stjórnmálum. Þrátt fyrir að hennar ímynd sé nokkuð harðgerð segir Hanna Birna að hún hafi alla tíð átt erfitt með að taka gagnrýni og segir að lekamálið hafi tekið mikið á hana. „Ég svaf ekki í heilt ár, ég var bara alveg miður mín. Ég gat ekki útskýrt málið, ég skildi ekki hvernig svona gat gerst á minni vakt. Ég hugsa að allir hafi skynjað það, sem voru að fjalla um það mál hversu ofboðslega persónulega ég tók þessu, og hversu mikið persónulegt mál þetta var fyrir mig. Mér fannst ég vera að bregðast.“

Lekamálið varð til þess að Hanna Birna sagði af sér. Það er nokkuð sem konur gera í meira mæli en karlar um allan heim. Hún segir að ýmsar rannsóknir sýni að almenningsálitið og fjölmiðlarnir fari harðari höndum um stjórnmálakonur. „Það er talað um það í fræðunum að konur sem ná langt í stjórnmálum og viðskiptum, þær séu afklæddar mennskunni. Eitthvað í höfðinu á okkur nær ekki að tengja harðgerar konur við hugmyndina sem við höfum um konur, sem mjúkar og umhyggjusamar. Þetta er hin fræðilega niðurstaða. Að það sé auðveldara að berja á konum, vegna það sé búið að afklæða þær mennskunni. En ég ætla ekki að kenna því um.“

Rætt var við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í Samfélaginu á Rás 1. Viðtalið í heild má heyra í spilaranum hér fyrir ofan.

atli's picture
Atli Þór Ægisson
vefritstjórn
Samfélagið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi