Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Átti alltaf að beita sér gegn mosku

Mynd með færslu
 Mynd:
Það kom Guðrúnu Bryndísi Karlsdóttur, sem skipaði fyrir skemmstu annað sætið á framboðslista Framsóknarflokksins fyrir komandi borgarstjórnarkosningar, ekki á óvart að úthlutun lóðar fyrir mosku ætti eftir að verða kosningamál.

Þetta kemur fram í grein sem Guðrún skrifar á vefritið Kvennablaðið. Þar segir hún að umræðan um moskuna snúist ekki um skipulagsmál. Hún snúist hins vegar um að halda á lofti hræðsluáróðri og ala á ótta við hið óþekkta og afla sér atkvæða út á nákvæmlega það.

Guðrún segist hafa skrifað greinina þar sem umræðan hafi þróast með ógnvekjandi hætti og að hún gæti ekki þagað lengur samvisku sinnar vegna. Guðrún greinir frá fundi sem hún átti með Benedikt Þór Gústafssyni, varaformanni kjörstjórnar. Hann hafi tíundað fyrir henni markmið múslima á Íslandi og að brátt myndu hér ganga í gildi sharia-lög.

Guðrún segir einnig að hún hafi greinilega ekki verið rétt forrituð í húmornum - henni hafi til dæmis ekki fundist orðið „múslimur" vera fyndið, þrátt fyrir að Benedikt hafi útskýrt „brandarann“ með orðinu „músatyppi."