Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Áttfalt stærra en gosið í Eyjafjallajökli

01.02.2015 - 11:34
Mynd með færslu
 Mynd:
Gosið í Holuhrauni er orðið átta sinnum stærra en gosið í Eyjafjallajökli árið 2010 og fimm sinnum stærra en gosið í Grímsvötnum 2011, ef magn gosefna er breytt í jafngildi þétts bergs.

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, hefur þannig reiknað út stærð nokkurra gosa. Gosið í Holuhrauni er orðið 1,3 rúmkílómetra stórt. Gosið í Grímsvötnum 2011 var um það bil 0,25 rúmkílómetra stórt og Eyjafjallajökulsgosið um 0,16 rúmkílómetrar. En þó Holuhraunsgosið sé stórt gos á flesta mælikvarða, þá á það langt i land með að ná Skaftáreldum 1783-1784. Gosefnin úr þeim eldum samsvöruðu 13 rúmkílómetrum af þéttu bergi - það er tíu sinnum meira en gosefnin úr Holuhrauni.