Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Attenborough veðjar á sólarorkuna

30.11.2015 - 22:24
epa04586963 British broadcaster and naturalist Sir David Attenborough poses for photographs at a preview screening for his latest nature documentary series called 'Natural Curiosities' at London Zoo, in London, Britain, 26 January 2015. The
 Mynd: EPA
Breski sjónvarpsmaðurinn David Attenborough segir að þróun ódýrari orkugjafa en jarðefnaeldsneytis sé lykilinn að því að draga úr hlýnun jarðar. Það sé vel mögulegt en tíminn sé þó orðinn naumur.

Sir David Attenborough er á meðal þátttakenda á loftslagsráðstefnunni í París en enginn þáttagerðarmaður á sviði náttúruvísinda nýtur viðlíka virðingar og hann. Attenborough hefur lengi varað við afleiðingum af hlýnun jarðar. Hann telur ekki of seint að bregðast við og það sé mögulegt með samstilltu átaki. 

Attenborough segir að ef hægt verði að safna, miðla og geyma orku á ódýrari máta en orku sem fáist úr kolum eða olíu þá sé vandinn næstum leystur. Þetta sé hægt ef helstu vísindamenn heims taki höndum saman.

Attenborough segir að orka sólar sé lykillinn að lausninni, mannkynið noti aðeins brotabrot af geislunum sem sólin baðar jörðina á hverjum degi. Ef hins vegar ekki verði brugðist skjótt við verði vandinn gríðarlegur. Því lengur sem málið sé dregið á langinn því erfiðara verði það og komandi kynslóðir muni skella skuldinni á okkur. 

 

sveinnhg's picture
Sveinn H. Guðmarsson
Fréttastofa RÚV