Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Átta öðruvísi jólalög fyrir jólapartíið þitt

Mynd með færslu
 Mynd:

Átta öðruvísi jólalög fyrir jólapartíið þitt

17.12.2018 - 16:04

Höfundar

Rammheiðið danskt jólarokk, sækadelía frá Texas, angurvært uppgjör Sufjan Stevens, kaldhæðnislegt jólarokk frá Eels og það sem hljómar eins og tónlistin úr Drive eftir Nicolas Winding Refn, ef hún væri jólamynd. Hér eru átta öðruvísi jólalög til að krydda tilveruna.

Khruangbin – Christmas time is here

Beinustu leið frá Texas kemur sækadelísk og sálarskotin útgáfa af einu eftirlætisjólalagi Bandaríkjamanna úr hinni geysivinsælu jólamynd Charlie Brown‘s Christmas. Khruangbin eru þekkt fyrir að sækja í asískan tónlistararf og fyrsta platan þeirra sem kom út árið 2015 fjallaði til að mynda um sögu tælenskrar tónlistar á sjötta áratugnum. 

Low – Just like christmas

Hér er komið fyrsta lagið á jólaplötu bandarísku indí-sveitarinnar Low frá árinu 1999 sem heitir því einfalda nafni Christmas, eða Jól. Platan geymir frumsamin lög í bland við klassísk og útsetningarnar eru lágstemmdar og notalegar, einmitt eins og margir vilja hafa jólin. Það er óhætt að mæla með plötunni í heild, en hún er hálftíma löng og hefur hlotið góða dóma hjá tónlistarspekingum. 

Nelson Can – On Christmas Night

Danska rokktríóið Nelson Can sendi frá sér grípandi jóla-rokkballöðu í fyrra. Lagið er svo vel heppnað að það er nánast synd að aðeins megi spila það í einn mánuð á ári. Í viðtali við Colorising.com segir sveitin að hér sé á ferðinni rammheiðið jólalag unnið út frá skandinavískum vinkli og þar séu vetrarsólstöður meginþemað en í viðlaginu segir: „Solstice in sight/We don’t have to wait anymore/We will be bathed in light on Christmas night.“ 

Everything's Gonna Be Cool This Christmas – Eels

Hljómsveitin Eels hefur verið starfandi frá árinu 1996 og þeir sem þekkja til vita að textarnir hjá söngvaranum Mark Oliver Everett fjalla flestir um brotnar fjölskyldur, ástarsorg og dauðann. Hljóðheimurinn er melankólískur og flutningurinn kæruleysislegur og áreynslulaus. Þetta er samt sem áður frábær strigi fyrir jólalag og það er eins og maður trúi söngvaranum næstum því þegar hann segir að allt verði bara í fína lagi um jólin. Næstum því.

Maybe this christmas – Ron Sexsmith

Mögulega frægasta framlagið á listanum en lagið var samið fyrir samnefnda plötu árið 2002. Umrædd plata er safnplata með frumsömdum og klassískum jólalögum í nýjum flutningi listamanna úr indí-rokk senunni og rann ágóði af sölunni til góðgerðarmálefnisins Toys for Tots. Platan seldist vel og ári seinna kom út önnur plata framleidd undir sömu formerkjum, Maybe this christmas too. Lagið hefur verið endurútsett mörgum sinnum af ýmsum tónlistarmönnum en varð að alvöru alþjóðlegum smelli þegar það var notað í unglingaþáttunum The OC. 

Driving under stars – Marika Hackman

Árið 2016 sendi enska folk-tónlistarkonan Marika Hackman frá sér lag sem hægt væri að lýsa sem hluta af hljóðheimi spennumyndarinnar Drive, ef hún væri jólamynd. Fínt lag fyrir þá sem finnst jólalög ekki töff en langar samt að hlusta á eitt svoleiðis.

Christmas in the Room – Sufjan Stevens

Blaðamenn The Verge settust yfir öll 100 lögin sem Sufjan Stevens hefur hljóðritað og/eða samið um hátíð barnanna. Hátíðin er Stevens mjög hugleikin enda á hann ýmislegt óuppgert úr æsku eins og persónulegar textasmiðar hans hafa leitt í ljós. Samkvæmt niðurstöðu The Verge er Christmas in the Room besta jólalagið af 100. Hér kemur þó sá fyrirvari að lagið fyllir hlustendur kannski depurð umfram jólaanda.

Costa del Jól – Skakkamanage

 

​​​​​​Hér er íslenskt raunsæi í glaðlegum umbúðum en listapoppararnir í Skakkamanage sendu frá sér þetta jólalag árið 2005. Eins og titill lagsins gefur til kynna er undirliggjandi stefið veðurbarnir Íslendingar í leit að betra veðri og sólríkari dögum yfir bláveturinn. Grípandi jólalag sem er auðvelt að fá á heilann og gott að syngja með í jólaboðum.

Tengdar fréttir

Tónlist

Sex með Svölu Björgvins og Baggalúti í Vikunni

Popptónlist

Eric Clapton og Tyler, the Creator í jólaskapi

Heilbrigðismál

Sálfræðingur varar við of mikilli jólatónlist

Tónlist

Högni Egilsson í jólatónlistarveislu DR