Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Átta kynferðisbrot í rannsókn á Akranesi

12.02.2013 - 11:38
Mynd með færslu
 Mynd:
Sjö karlmenn hafa verið kærðir til lögreglunnar á Akranesi vegna kynferðisbrota en rannsóknardeildin þar hefur nú alls átta kynferðisbrot til rannsóknar. Börn koma við sögu í sex málanna og er yngsta barnið nú þrettán ára. Síðasta kæran barst lögreglunni á föstudaginn.

Brotin eru öll nýleg að sögn Jónasar Ottóssonar, hjá rannsóknardeildinni. Hann segir að málin hafi öll komið upp á svipuðum tíma, sum tengist innbyrðis og sum hafi komið í ljós þegar farið var að rannsaka önnur. Þau börn sem eru yngri en fimmtán ára hafa verið yfirheyrð í Barnahúsi. Fimmtán til átján ára börn fá ekki inni í Barnahúsi sem Jónas segir að sé umhugsunarefni. Hann viðurkennir að mikið mæði nú á tveggja manna rannsóknardeild lögreglunnar á Akranesi, en undir hana heyra Dalirnir, Snæfellsnesið, Borgarfjörður og Akranes. Rannsókn málanna er mislangt á veg komin en það styttist í að sum þeirra verði send ríkissaksóknara.