
Átta krónur í ríkiskassann fyrir hverja eina
Ekki öll svæðin friðlýst
Rannsóknin tók til 12 svæða vítt og breitt um landið. Flest njóta þau einhvers konar verndar en tvö svæði sem gera það ekki, Hvítserkur og Hengifoss, sem er stjórnað af Vatnajökulsþjóðgarði, voru þó höfð með, að sögn rannsakenda í þeim tilgangi ná að fanga ólík svæði.
„Það deyr ekki allt“
Niðurstöðurnar byggja á viðtölum við yfir 3000 ferðamenn, tekin á þessum svæðum, tölum frá ríkisskattstjóra og könnunum meðal atvinnurekenda.
„Það sem rannsóknin leiðir í ljós er að það geta skapast störf og það getur verið líf í kringum einhverja staði sem eru friðlýstir, það þýðir ekki að það deyi út allt líf í kringum þessa staði,“ segir Sigurður Jóhannesson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar HÍ.
Rannsóknin sýnir að virði friðlýstra svæða er ekki einungis táknrænt eða samfélagslegt heldur felast líka í þeim mikil efnahagsleg verðmæti. Ferðamenn taka upp veskið og greiða fyrir ýmsan varning eða þjónustu. Þá skapast fjölmörg störf við að sinna ferðamönnunum.
Þjóðgarðurinn breytt miklu
Niðurstöðurnar ríma vel við upplifun Kristins Jónasarsonar bæjarstjóra í Snæfellsbæ af áhrifum Snæfellsjökulsþjóðgarðs þar. „Allar tölur sem við sjáum um fjölda fólks, fjölda bíla, fjölda veitingastaða, fjölda gististaða, fjölda gistirýma það hefur margfaldast frá því að þjóðgarðurinn var stofnaður. Það er enginn vafi í mínum huga að þjóðgarðurinn hefur haft gríðarleg áhrif á uppbyggingu svæðisins, mjög jákvæð áhrif. Við erum að sjá það til dæmis á ferðamannastöðum eins og við Saxhól sem voru kannski nokkur þúsund manns á ári sem komu, nú eru að koma 120 þúsund manns á þann stað, eftir að settir voru fjármunir í að laga hann. Við sjáum að þegar gestastofan opnaði fyrst komu rúm 3000 manns nú í október eru komin 68 þúsund manns. Auðvitað tengist þetta líka fjölda ferðamanna en ég held að þjóðgarðurinn sem slíkur sé aðdráttarafl.“
Friðlýsing eða Bieber-myndband
En er það friðlýsingin sjálf sem laðar fólk og fjármuni að eða einfaldlega náttúrufegurðin?
Kristinn er ekki viss en segir uppbyggingu innviða á áningastöðum örugglega hjálpa mikið. „Ef það væri engin innviðauppbygging á svæðinu þá væri ekkert þangað að sækja.“
Sigurður segir að oft nægi að staðirnir komi fyrir í myndböndum sem dreifist víða. Justin Bieber kom flugvélarflakinu á Sólheimasandi til dæmis rækilega á kortið. „Ég held að það sem mestu máli skiptir séu staðirnir sjálfir þó hitt hjálpi til.“
Þegar staðir séu friðlýstir megi ekki raska þeim. Þá segir Sigurður að þeir rati kannski fyrr í ferðabæklinga, verði til þess að fjármagn fáist til stígagerðar, þess að setja upp kynningaspjöld eða reisa móttökuhús.
Margfalt í kassann
Rannsakendum telst til að fyrir hverja krónu sem ríkið leggur til friðlýstra svæða verði til 23, þar af átta krónur í formi tekjuskatts. Hlutfallið er mjög misjafnt milli svæða. Þannig fást 10 krónur fyrir hverja eina við Dynjanda en 158 fyrir hverja eina krónu við Hraunfossa.
Í fyrra hafi ferðamenn varið 10 milljörðum króna innan svæðanna tólf eða í næsta nágrenni þeirra, ávinningurinn fyrir þjóðarbúið í heild nam samkvæmt rannsókninni 33,5 milljörðum. Þá töldu rannsakendur að rekja mætti 5.500 störf til þessara svæða. Staðirnir gefa misvel, á myndinni hér fyrir neðan gefur að líta helstu „mjólkurkýrnar“.
Gullnámur eða fjársvelt svæði?
Segir þetta okkur að þjóðgarðarnir okkar séu gullnáma eða má lesa eitthvað annað út úr þessu?
„Ég held það endurspegli fyrst og fremst það að það hafi verið settir tiltölulega litlir peningar í þessa staði ennþá, við erum ekki endilega að mæla orsakasamhengi milli útgjalda og tekna.“
Þannig sé ekki hægt að treysta á að hlutföllin haldi sér ef hærri fjárhæðum yrði varið til innviðauppbyggingar, þótt það sé til góðs að mati Sigurðar.