Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Átta erlend á Airwaves sem alla ættu að kæta

Mynd: Chai / Chai

Átta erlend á Airwaves sem alla ættu að kæta

03.11.2019 - 10:06

Höfundar

Iceland Airwaves hefst á miðvikudaginn í næstu viku en hátíðin fagnar tuttugu ára afmæli um þessar mundir. Meira en 150 hljómsveitir koma fram yfir fjóra daga, en hér eru átta erlend atriði sem Menningarvefur RÚV telur vert að bera sig eftir.

Booka Shade

Gömlu þýsku teknóbrýnin í Booka Shade sem hér óma undir hafa slegið taktinn frá því í byrjun tíunda áratugarins og hafa rokkað dansgólf frá Ibiza til norðurslóða. Þeir slógu í gegn um miðjan óþekka áratuginn þegar platan Movements kom út og ekki var þverfótað fyrir lögum eins og Body Language, Mandarine Girl og In White Rooms í miðbæ Reykjavíkur, ekki síst í Bermúdaþríhyrningnum milli Kaffibarsins, Sirkús og 22. Þeir hafa tvisvar komið til Íslands, og spilað á árslistakvöldi Partyzone á Gauk á stöng 2007, og á Eve Online Fanfest í Laugardalshöll 2011, og eru mjög hressir á sviði þar sem annar meðlima tekur sér stöðu bak við trommusettið.


Mac DeMarco

Mac DeMarco er 28 ára gamall söngvari, lagahöfundur og upptökustjóri sem hefur vakið mikla athygli og fengið feiknagóða dóma fyrir letilegt indípopp á plötum eins og Salad Days og This Old Dog, og var tilnefndur til kanadísku Polaris-verðlaunanna árið 2014 fyrir fyrrnefndu plötuna. Hann spilaði á Iceland Airwaves-hátíðinni árið 2013 og vakti mikla lukku, ekki síst fyrir frjálslega framkomu og forvitnileg tökulög, en Mac DeMarco og hljómsveitin töldu í slagara með böndum eins og Dire Straits, Rammstein og Bruce Springsteen, svo fátt eitt sé nefnt. Ég sá hann spila á Primavera í sumar og það sulluðust persónutöfrar af sviðinu úr letilegu slæpingjarokkinu.


Madame Gandhi

Madame Gandhi er raftónlistarkona og aktívisti sem er fædd á Indlandi en býr í Los Angeles. Hún er með MBA-gráðu frá Harvard og hefur trommað fyrir MIA og Thievery Corporation. Hennar þriðja EP-plata Visions, sem kom út í ár, hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir framsækið og femínískt rafpopp. Gandhi sækir áhrif til allra heimshorna með áherslu á áslátt og bassa, en í hljóðheiminum ægir saman öllu frá trappi til teknós og afróbíts og rödd Gandhi flakkar léttilega milli töffararapps og angurværrar falsettu.


Orville Peck

Kúrekinn Orville Peck hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir sína fyrstu breiðskífu Pony sem kom út í mars á vegum Sub Pop-útgáfunnar, og var meðal annars tilnefnd til hinna virtu Polaris-verðlauna. „Það hefur alltaf verið súbversíf hlið á kántrítónlist, neðanjarðarsena sem gaumgæfir og afbyggir klassísk amerísk menningarminni,“ sagði Peck í viðtali við Poppland í sumar. „Og þótt enginn sé að brjóta gítara þá er uppreisnarandi pönksins til staðar á tónleikunum mínum, bæði í lögunum og framkomunni.“ Peck er samkynhneigður og kemur ávallt fram með grímu og í kúrekabúning, og honum er annt um að auka fjölbreytileika innan hinnar áður karllægu og hvítu kántrísenu.


Velvet Negroni

Söngvarinn og tónlistarmaðurinn Jeremy Nutzman er frá Minneapolis í Bandaríkjunum og gengur undir því eitursvala listamannsnafni Velvet Negroni. Hans önnur breiðskífa Neon Brown kom út í haust á vegum 4AD og hefur verið að klífa virðingarstiga hjá miðlum eins og Rolling Stone og Guardian auk þess að afla honum aðdáenda eins og Justin Vernon úr Bon Iver, Kanye West og Kevin Parker úr Tame Impala, sem hann hitaði upp fyrir á dögunum. Þá hefur hann haft hönd í bagga með lögum með Future, Young Thug og Lizzo. Á Neon Brown er að finna gamla sál og framtíðarfönk, en silkimjúk rödd Nutzmann bindur allt saman.


Pink Milk

Sænska drungatvíeykið Pink Milk svamlar í hljóðheimi síðpönks og goth-sveita eins Siouxie and the Banshees, Joy Division, Cure og Bauhaus, þar sem oddhvassir gítarar og þrumuþrungnar bassatrommur með miklu bergmáli leika lykilhlutverk. Þau Maria og Edward Forslund tóku upp sitt fyrsta efni einangruð í hlöðu á sænsku eyjunni Gotlandi þegar þau stofnuðu Pink Milk árið 2015. Þau sendu frá sér sína fyrstu smáskífu sama ár en komust almennilega á kortið þegar þau gáfu út fallega ábreiðu af laginu I Want To Know What Love Is með Foreigner.


CHAI

CHAI er japönsk stelpupopppönksveit og þær gáfu út sína fyrstu plötu, PINK, árið 2017. Hún kom þeim á samning hjá bandaríska útgáfufyrirtækinu Burger Records ári síðar og fyrr á þessu ári kom út platan PUNK. Þær nefna Basement Jaxx, Jamiroquai, Gorillaz og CSS sem nokkra af helstu áhrifavöldum sínum. Þær eru þekktar fyrir áhugaverða framkomu, samstillt dansspor og að klæðast göllum í stíl.


John Grant

Nýjasta plata uppáhalds-Íslandsvinar þjóðarinnar er þrungin nýrómantík og níðþungum textum þar sem stöflum á stöflum ofan af hljómborðum er hlaðið á hljóðheiminn. Hann kemur hins vegar fram í Fríkirkjunni mestmegnis órafmagnaður og það verður áhugavert að sjá hvað hann gerir í því rými.

Tengdar fréttir

Tónlist

Semja lög um perverta og pólítík

Tónlist

Angurværar tregavísur um hinsegin ástir

Tónlist

Draumkennd lög um kynlíf og eiturlyf

Tónlist

Kökusneið af hversdeginum í draumkenndu móki