Átta ára ákvörðun gæti reynst dýrkeypt

06.12.2018 - 21:34
Mynd með færslu
 Mynd: www.svn.is
Umboðsmaður Alþingis komst árið 2015 að sömu niðurstöðu og Hæstiréttur gerði í dag. Átta ára gömul ákvörðun ráðherra um að úthluta makrílkvóta ekki eftir veiðireynslu hafi verið í ósamræmi við lög. Ákvörðunin gæti reynst ríkissjóði dýrkeypt.

 

Íslenska ríkið gæti þurft að greiða útgerðarfélögum sem höfðuðu mál gegn ríkinu milljarða í bætur. Dómurinn tekur til áranna 2011 til 2014. Árin þar á eftir eiga samkvæmt dómnum eftir að koma til skoðunar.

Á árunum 2010 til 2013 var makrílkvóta úthlutað til fleiri aðila en þeirra sem veitt höfðu makríl á árunum 2007 til 2010, svo sem til línuveiðibáta. Þetta var gert á grundvelli ákvörðunar Jóns Bjarnasonar, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra sem horfði til byggðasjónarmiða. 

Í lögum um fiskveiðar utan lögsögu Íslands segir að sé tekin ákvörðun um að takmarka heildarafla úr stofni sem bæði finnst innan og utan lögsögu og hefur verið veiddur samfellt í sex ár eigi að ákveða aflahlutdeild einstakra skipa á grundvelli veiðireynslu þeirra. Makríll hefði ekki verið veiddur samfellt í sex ár og ráðuneytið taldi að þar af leiðandi væri skylda ráðherra til að útdeila kvóta á grundvelli veiðireynslu ekki virk. Þá hafi ákvæði um samninga milli strandríkja ekki verið uppfyllt. 

Umboðsmaður Alþingis skilaði áliti um málið árið 2014, eftir að tvö útgerðarfyrirtæki kvörtuðu undan fyrirkomulaginu. Það var niðurstaða hans að ekki yrði fallist á skýringar ráðuneytisins, veiðireynslan hafi talist samfelld í skilningi laganna. Ákvörðun stjórnvalda hafi því ekki verið í samræmi við lög. Umboðsmaður mældist til þess að ráðuneytið tæki málið til skoðunar.

Sigurður Ingi Jóhannsson, sagði árið 2015, þá sjávarútvegsráðherra, að hann hygðist bregðast við áliti umboðsmanns með frumvarpi, það væri skylda hans. Makrílfrumvarpið varð afar umdeilt og náði ekki fram að ganga.

Nú hyggst ráðuneytið taka skipulag makrílveiða til athugunar, í ljósi dómsins. 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi