Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Atriðinu ekki breytt fyrir Eurovision

Mynd: Mummi Lú / RÚV

Atriðinu ekki breytt fyrir Eurovision

02.03.2020 - 17:45

Höfundar

Á laugardaginn varð ljóst að lagið Think About Things með Daða og Gagnamagninu verður framlag Íslendinga í Eurovision. Þau Daði Freyr og Árný Fjóla eru hægt og rólega að ná sér niður á jörðina eftir sigurinn en mikil vinna er fram undan, þrátt fyrir að þau búast ekki við miklum breytingum á atriðinu.

Daði segist ennþá vera mjög rólegur yfir þessu á meðan að Árný viðurkenndi að vera í smá spennufalli. „Það er spennufall, mér líður pínu eins og 2017, það er annar kafli að byrja en ég held að ég sé ekki búin að fatta hversu stór kafli er að byrja núna.“

Í dag birtust svo fréttir þess efnis að íslenska framlagið er komið í efsta sæti hjá veðbönkum yfir líklegustu sigurvegara í keppninni. Felix Bergsson þekkir Eurovision betur en margir en hann hefur verið fararstjóri íslenskra keppenda undanfarin ár. Hann vill ekki fara alveg framúr sér yfir þessum spádómum þrátt fyrir að þeir gefa tilefni til bjartsýni. „Ekki gerst síðan ég byrjaði í þessu, ég hef aldrei séð þetta áður,“ sagði Felix. Á sama tíma í fyrra hafi hollenska lagið verið í efsta sæti hjá veðbönkum en það atriði endaði með að sigra í lokakeppninni. Hann segir þó of snemmt að taka of mikið mark á þessum fréttum, „Já, já, auðvitað. Núna bara byrjum við vinnuna og það verður ógeðslega gaman með þessu dásamlega fólki.“ Aðspurð um breytingar á laginu segjast þau ekki eiga von á miklum breytingum. „Var þetta ekki bara fínt?“ sagði Árný og hló.

Mynd: Mummi Lú / Mummi Lú
Atriðið verður með svipuðu sniði í Hollandi og í Laugardalshöll.

„Atriðið er í raun búið til á undan laginu, erum ekki að fara að breyta laginu þannig að við breytum ekki atriðinu mikið. Stærra svið, fleiri myndavélar og ljós. Aðallega það sem við ætlum að skoða en hreyfingarnar hjá okkur verða nokkurn veginn þær sömu,“ bætti Daði við. Áhorfendur á laugardaginn tóku eflaust eftir því að Daði og Gagnamagnið lentu í vandræðum í seinni flutningi sínum áður en að lagið var stöðvað og þeim boðið að byrja upp á nýtt sökum tæknilegra vandamála. Þau segjast ekki vita nákvæmlega hvað gerðist. 

„Ég veit ekki beint hvað gerðist tæknilega en það var greinilega sama hljóð í salnum og sjónvarpinu en það var alls ekki það sama og við vorum með í eyranu. Við fylgdum bara því sem við vorum með í eyrunum, einhverju þurftum við að fylgja og ég er mjög feginn að hafa tekið ákvörðun um það heldur en að reyna að fylgja einhverju skrýtnu feedback út í sal því þar heyrist aðallega bassinn. Ég er mjög þakklátur að þetta hafi verið stoppað. Reyndar þegar ég horfði á þetta finnst mér pínu skrýtið að þetta hafi ekki verið stoppað fyrr því þetta var alveg stórskrýtið,“ sagði Daði um þessa tæknilegu örðugleika.

Árný og hinir dansararnir eru hins vegar ekki með neitt í eyrunum og þurfa því að reiða sig á hljóðið út í sal. Hún segist því strax hafa tekið eftir að eitthvað var að. „Það var mjög skrýtið að heyra söngvarana syngja á einhverri hraðspólun.“ Þrátt fyrir að forkeppninni sé nú lokið er nóg fram undan hjá hópnum. Felix segir að nú taki við fundarhöld og að skila öllum gögnum til Eurovision. Aðspurður sagði Felix að það verði að koma í ljós hvort COVID-19 geti sett strik í reikninginn. „Við bíðum bara róleg og sjáum hvað gerist, það er ekki verið að aflýsa viðburðum ennþá mikið í Evrópu þannig að við tökum bara eitt skref í einu í þessu og hlýðum þeim fyrirmælum sem við fáum.“

Tengdar fréttir

Tónlist

Daði og Gagnamagnið sigruðu með yfirburðum

Tónlist

Daði og Gagnamagnið í efsta sæti hjá veðbönkum

Menningarefni

Daði Freyr bar sigur úr býtum í Söngvakeppninni

Menningarefni

Daði Freyr og Dimma áfram í úrslitaeinvígið