Daði segist ennþá vera mjög rólegur yfir þessu á meðan að Árný viðurkenndi að vera í smá spennufalli. „Það er spennufall, mér líður pínu eins og 2017, það er annar kafli að byrja en ég held að ég sé ekki búin að fatta hversu stór kafli er að byrja núna.“
Í dag birtust svo fréttir þess efnis að íslenska framlagið er komið í efsta sæti hjá veðbönkum yfir líklegustu sigurvegara í keppninni. Felix Bergsson þekkir Eurovision betur en margir en hann hefur verið fararstjóri íslenskra keppenda undanfarin ár. Hann vill ekki fara alveg framúr sér yfir þessum spádómum þrátt fyrir að þeir gefa tilefni til bjartsýni. „Ekki gerst síðan ég byrjaði í þessu, ég hef aldrei séð þetta áður,“ sagði Felix. Á sama tíma í fyrra hafi hollenska lagið verið í efsta sæti hjá veðbönkum en það atriði endaði með að sigra í lokakeppninni. Hann segir þó of snemmt að taka of mikið mark á þessum fréttum, „Já, já, auðvitað. Núna bara byrjum við vinnuna og það verður ógeðslega gaman með þessu dásamlega fólki.“ Aðspurð um breytingar á laginu segjast þau ekki eiga von á miklum breytingum. „Var þetta ekki bara fínt?“ sagði Árný og hló.