Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Átökin innan Framsóknar að baki

11.03.2018 - 12:50
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Jón Björn Hákonarson, ritari Framsóknarflokksins, segist gera ráð fyrir því að átökin sem staðið hafa innan Framsóknarflokksins síðustu ár séu að baki. Þetta hafi hann fundið á miðstjórnarfundi flokksins í haust og aftur á flokksþingi um helgina.

Framsóknarmenn ljúka flokksþingi sínu í dag en það hefur staðið í þrjá daga í Gullhömrum í Grafholti í Reykjavík undir yfirskriftinni Framsókn til framtíðar. Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir fréttamaður hefur fylgst með þinginu í dag.  Hún segir að yfirskriftina megi skilja sem svo að átök síðustu ára séu að baki: „Og kannski sér í lagi síðasta flokksþing í Háskólabíói í október 2016 þegar kom til uppgjörs milli þeirra Sigurðar Inga Jóhannssonar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem síðan leiddi til þess að Sigmundur Davíð sagði sig úr flokknum eftir átta ár í honum og stofnaði sinn eigin flokk, Miðflokkinn. Í dag afgreiða Framsóknarmenn ályktanir og lagabreytingar þar sem meginþunginn er á menntamálum og velferðarmálum og hér rétt í þessu fékk Elsa Lára Arnardóttir Jafnréttisviðurkenningu Framsóknarflokksins 2018 en hún er framkvæmdastjóri þingflokks og fyrrum þingmaður.“

Jón Björn Hákonarson, nýendurkjörinn ritari Framsóknarflokksins, segir að flokkurinn hafi endurnýjað sig á flokksþinginu og lagt þunga í velferðarmál og menntamál. „Um leið stöndum við föstum fótum í atvinnumálum.“

„Ég geri ráð fyrir því að þau séu að baki,“ segir hann um átökin. „Ég finn það bæði á miðstjórnarfundi flokksins í haust og hér í dag a þessu flokksþingi að hér eru menn samstilltir og meðvitaðir umþ að að Framsóknarflokkurinn á mörg ár eftir, þrátt fyrir sín hundrað.“