Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Atli það ekki bara?

Mynd með færslu
 Mynd: Atli Heimir Sveinsson - Atli Heimir SVeinsson

Atli það ekki bara?

15.05.2015 - 13:00

Höfundar

Atli Heimir Sveinsson tónskáld verður í aðalhlutverki í Hátalaranum og Víðsjá í dag í tilefni tónleika- og fyrirlestrarraðar sem hefst í dag í Mengi og verður helguð höfundaverki Atla Heimis.

Tónleikaröð þessi fagnar verkum hins afkastamikla tónlistarmanni og tónskáldi Atla Heimi Sveinssyni. Borgar Magnason, sem stýrir seríunni, hefur unnið að heildarsamantekt á höfundarverki Atla Heimis undanfarið ár. Við þá vinnu kom í ljós heilt ævistarf af verkum í framúrstefnustíl sem samin eru á árunum fyrst eftir að Atli Heimir kynnist Stockhausen og evrópskri framúrstefnu. Það sem kemur helst á óvart við þessi metnaðarfullu og framúrstefnulegu verk hans er að sum hafa aldrei verið flutt, hvað þá tekin upp og mörg hver hafa ekki heyrst síðan þau voru frumflutt. Fjöldinn allur af verkum bíður því flutnings en flutningur á úrvali þeirra er leiðarstefið í tónleikaröðinni, þó einleiks- og kammerverk frá öðrum tíma fái einnig að fylgja með.

Gestir í HátalaraVíðsjá í dag verða auk Atla Heimis sjálfs þau Áshildur Haraldsdóttir flautuleikari, Guðni Franzson, klarínettuleikari, Kjartan Ragnarsson, leikstjóri, Melkorka Ólafsdóttir, flautuleikari, Arngunnur Árnadóttir klarínettuleikari og  Þráinn Hjálmarsson tónskáld.

Umsjónarmenn Hátalara og Víðsjár stýra útsendingu sem hefst klukkan 16:05.