Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Atkvæði greidd um orkupakkann í ágúst

18.06.2019 - 19:57
Mynd: RÚV / RÚV
Gert er ráð fyrir að afgreiðsla þeirra fjögurra mála tengd þriðja orkupakkanum verði afgreidd og lokið í lok ágúst að sögn Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra. Hún lítur svo á að þar með hafi allir flokkar hafi undirgengist þá grundvallarreglu að vilji meirihlutans á Alþingi fái að birtast í þessum málum.

Samkomulag tókst á milli flokka í kvöld um afgreiðslu mála og þinglokin.

Katrín sagði í viðtali í kvöldfréttum RÚV að niðurstaðan væri efnislega samhljóða þeirri tillögu sem hún lagði fram fyrir nokkrum vikum. Hún sagði samkomulagið fela í sér að boðað verði til síðsumars þings í lok ágúst og að þar verði málum orkupakkans lokið. 

„Í aðdraganda þessa þinghalds mun utanríkismálanefnd funda tvisvar til þrisvar sinnum og fara yfir það sem þingflokkarnir vilja leggja á borð hennar,“ sagði Katrín. Hún telur mikilvægt að ljúka þessu þingi í samkomulagi. Katrín er þeirrar skoðunar að endurskoða þurfi þingsköpin og vonast til þess að það verði gert sem fyrst. 

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sagðist ánægður þegar ríkisstjórnin klárar sín mál. Hann sé hins vegar ekki sáttur við það hvernig þingið hefur þróast og að það skuli vera komið langt út fyrir starfsáætlun. „Ég held að við verðum að horfast í augu við það að við skerum okkur mjög úr svona í samanburði við aðrar þjóðir með það hvernig þingið gengur fram þegar að ágreiningur rís, þá fer hér allt í hnút og það er of auðvelt að taka þingið í gíslingu,“ sagði Bjarni. 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, var einnig ánægður með niðurstöðuna og sagði að nú gæfist tækifæri til að skoða orkupakkamálið betur.  „Þó að einhverjir Sjálfstæðismenn hafi ekki viljað skipa þessa formlegu nefnd þá verður hægt að vinna í þessu í sumar og leggja niðurstöðurnar fyrir utanríkismálanefnd, það er mjög jákvætt.“