Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Atkvæðagreiðsla um stjórnarskrá Chile í apríl

15.11.2019 - 08:28
epa07997814 Protesters take part in a demonstration during a commemoration of the first anniversary of the death of Mapuche community member Camilo Catrillanca, in Santiago, Chile, 14 November 2019. Catrillanca was shot in the head by national police during protests in the southern region of La Araucania.  EPA-EFE/ORLANDO BARRIA
Mikil mótmæli hafa verið í Chile undanfarnar vikur. Mynd: EPA-EFE - EFE
Stjórnvöld í Chile hafa ákveðið að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá landsins og var ákvörðun þess efnis tilkynnt í nótt.

Mikil mótmæli hafa verið í Chile undanfarnar vikur og hefur þar verið ein meginkrafan að gerð verði ný stjórnarskrá. Gildandi stjórnarskrá er frá 1980, frá valdatíð Augustos Pinochets einræðisherra, en hefur nokkrum sinnum verið breytt.

Þar er ekki kveðið á um að ríkið skuli tryggja landsmönnum menntun og heilbrigðisþjónustu, en mótmælendur vilja fá slíkt ákvæði í nýja stjórnarskrá.

Þjóðaratkvæðagreiðslan verður í apríl á komandi ári og þar verða kjósendur spurðir að því hvort þeir vilji nýja stjórnarskrá og ef svo hvernig skuli staðið að gerð hennar.