Átaldi framgöngu Þórhildar Sunnu og Björns

05.02.2019 - 20:09
Mynd með færslu
 Mynd:
Bryndís Haraldsdóttir, varaforseti Alþingis, átaldi framgöngu Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur og Björns Leví Gunnarssonar, þingmanna Pírata, á þingi í dag. Þórhildur Sunna og Björn Leví stilltu sér upp við ræðustól Alþingis í dag með „Fokk ofbeldi“ húfur á höfði. Þetta gerðu þau við upphafið að ræðu Bergþórs Ólasonar, þingmanns Miðflokksins, í umræðum um samgönguáætlun til fimm ára.

Þingmennirnir tveir stöldruðu stutt við og hvorki Bergþór né Brynjar Níelsson, sem þá stýrði fundum Alþingis, gerði athugasemd við framgöngu þeirra. Bryndís Haraldsdóttir, tók við fundarstjórn af Brynjari og tók á málinu. „Forseti vill átelja framkomu háttvirtra þingmanna Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur og Björns Levís Gunnarssonar við upphafsræðu háttvirts þingmanns Bergþórs Ólasonar,“ sagði Bryndís. 

Bryndís vísaði til orða forseta Alþingis árið 2012 þegar tveir þingmenn gengu framhjá ræðustól Alþingis með blöð sem á stóð málþóf. Það voru þeir Björn Valur Gíslason, Vinstri grænum, og Lúðvík Geirsson, Samfylkingunni. Í ræðustól var Illugi Gunnarsson Sjálfstæðisflokki. Þetta gerðist í umræðu um fjárlög og olli uppnámi á þingi. Bryndís vísaði til orða þáverandi forseta Alþingis sem sagði að atvik af þessu tagi væru ekki við hæfi og að á Alþingi tjáðu menn sig úr ræðustóli.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV