Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Átak gegn heimilisofbeldi

04.06.2019 - 15:18
Mynd með færslu
Sigfús Ingi Sigfússon og Gunnar Örn Jónsson við undirritun í morgun Mynd: Sveitarfélagið Skagafjörður
Lögreglan á Norðurlandi vestra og sveitarfélagið Skagafjörður hafa tekið höndum saman og vilja senda skýr skilaboð út í samfélagið: heimilisofbeldi verði ekki liðið. Nýju átaksverkefni er ætlað að auka upplýsingagjöf og bæta verklag í heimilisofbeldismálum.

Fyrr í dag var undirrituð yfirlýsing um samstarf og samvinnu gegn heimilisofbeldi. Á heimasíðu sveitarfélagsins segir að með átaksverkefninu eigi að veita þolendum og gerendum betri þjónustu og vernda börn sem búi við heimilisofbeldi. 

Aukið samstarf muni skila betri þjónustu

Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri Skagafjarðar segir að verkefnið hafi verið í vinnslu í nokkra mánuði og kvaðst mjög ánægður með undirritunina þegar fréttastofa náði tali af honum. Markmiðið sé að grípa inn í mál eins fljótt og vart verði við hugsanlegt heimilisofbeldi. Þau vilji gefa skýr skilaboð og segir Sigfús að málin verði tekin föstum tökum. Þau vonist til að aukið samstarf skili betri þjónustu og veiti betri vernd fyrir börn og aðra sem búi við slíkar aðstæður.

Með undirrituninni er komið á formlegu samstarfi og nákvæmt verklag innleitt. Verði lögreglan vör við hugsanlegt heimilisofbeldi hefur hún samband við fulltrúa fjölskyldusviðs hjá sveitarfélaginu og öfugt. Þá var Heilbrigðisstofnun Norðurlands vestra einnig með í undirbúningi og á að tryggja þolendum heimilisofbeldis og þeim sem á þurfa að halda í þessum málum öruggan og skjótan aðgang að viðeigandi aðstoð. 

Skagafjörður er fyrsta sveitarfélagið á Norðurlandi vestra sem gefur út yfirlýsingu af þessu tagi. Verkefnið er hugsað til eins árs og verður árangur metinn að því loknu. Standist verkefnið væntingar verður verklagið tekið upp varanlega.