Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Ástsýki og fátækt Suárez

Mynd með færslu
 Mynd:

Ástsýki og fátækt Suárez

26.06.2014 - 15:41
Luis Suárez, framherji Úrúgvæ og Liverpool, var í dag dæmdur í fjögurra mánaða bann frá knattspyrnu fyrir að bíta Ítalann Giorgio Chiellini á heimsmeistaramótinu í Brasilíu. Skýringa á ofsafenginni framkomu er leitað í mikilli fátækt í æsku og taumlausri ást.

Suárez spilaði fyrir Nacional í Úrúgvæ á sínum yngri árum en nítján ára fór hann til Groningen í Hollandi og ári síðar til Ajax. Hann sló í gegn í Hollandi, varð fyrirliði Ajax og markahæsti leikmaðurinn með 35 mörk í 33 leikjum og var valinn besti leikmaður Hollands. Liverpool keypti hann árið 2011 fyrir 23 milljónir punda. Þar var hann valinn besti leikmaður deildarinnar og varð í vor markahæsti maður úrvalsdeildarinnar með 31 mark. Hann er markahæsti leikmaður Úrúgvæ frá upphafi.

Suárez er einstakur leikmaður með einstaka hæfileika en hann á sér aðra hlið sem kemur honum reglulega í umræðuna. Hann gerir allt til að vinna, kastar sér niður þótt lítil sem engin snerting eigi sér stað, hann hefur skallað dómara svo fossblæddi og í þrígang hefur hann bitið andstæðing inni á vellinum. Hann beit Otman Bakkal í öxlina þegar hann lék með Ajax 2010 og var dæmdur í sjö leikja bann. Ári síðar var hann dæmdur í átta leikja bann fyrir kynþáttafordóma í garð Patrice Evra hjá Manchester United og neitaði síðan að taka í höndina á þessum sama Evra næst þegar þeir mættust á vellinum. Suárez var líka dæmdur í eins leiks bann fyrir ruddalega framkomu í garð stuðningsmanna Fulham. Árið 2013 var hann dæmdur í tíu leikja bann fyrir að bíta Ivanovic hjá Chelsea. Á heimsmeistaramótinu í Brasilíu beit hann Ítalann Chiellini. Hann hefur líka verið gagnrýndur fyrir að verjast með höndum og nýta þær einnig til að skora mörk. Hann gerir allt til að vinna.

Suárez fæddist í Salto í Úrúgvæ, fjórði í röðinni af sjö bræðrum. Fjölskyldan fluttist til höfuðborgarinnar Montevídeó þegar hann var sjö ára og tveimur árum síðar skildu foreldrar hans. Fátæktin var mikil, Suárez vann sem götusópari á unga aldri en lék knattspyrnu þess á milli á strætum borgarinnar. Mamman skúraði gólf og Suárez hafði ekki efni á fótboltaskóm. Afi hans var blökkumaður og amman kallaði hann Mi Negrito eða negrinn minn, frasi sem Suárez á að hafa notað síðar gegn Patrice Evra.

Blaðamaðurinn Wright Thompson fór í vor til Úrúgvæ til að skrifa grein um Suárez. Leit hans að sannleikanum er ævintýraleg. Í ljós kom að búið var að þurrka út allt um atvikið þegar Suárez skallaði dómarann sextán ára gamall. Rannsóknarblaðamaðurinn Gabito var skotinn í fótinn á sínum tíma þegar hann rannsakaði málið, það átti að drepa hann. Gabito rannsakaði gríðarlega spillingu í fótboltanum í Úrúgvæ en hefur ekkert fengið að gera síðustu árin. Gabito segir að í Úrúgvæ þekki allir þá miklu fátækt sem Suárez steig upp úr. Hann geri allt til að vinna, sama hvað, til að losna við fátækt fortíðarinnar. Hann bíti til að halda í núverandi líf sitt, dauðhræddur um að sogast aftur í myrka fátækt æskunnar. Gabito segir að fótboltinn hafi bjargað Suárez. Án hans væri hann ekkert. Hann segist skilja Suárez. Hann hefði gert það sama í hans sporum. Suárez skallaði dómarann í mikilvægum úrslitaleik á þeim tímamótum þegar það ræðst hvort ungir knattspyrnumenn fá samning eða hverfa aftur til fyrra lífs. Dómarinn þótti hliðhollur andstæðingnum og rak Suárez að velli. Framtíðin var að veði, Suárez sá rautt og skallaði dómarann svo að honum fossblæddi.

Suárez þótti latur sem krakki og drykkfelldur. Þjálfarinn þurfti oft að draga hann á æfingar því hann sá hæfileikana sem Suárez nennti ekki að sinna. Ekki fyrr en hann varð fimmtán ára og hitti Sofíu Balbi, ljóshærða millistéttarstúlku. Suárez sópaði götur og fann smámynt til að geta boðið dömunni út. Hann fluttist inn til fjölskyldu hennar, fékk kærkomið öryggi, mat að borða og lagði skyndilega hart að sér í skóla. Ári síðar flutti fjölskylda hennar til Barcelona. Eina leiðin fyrir Suárez til að komast til hennar var að verða nógu góður í fótbolta. Hann lagði allt í sölurnar og nítján ára var hann kominn til Evrópu. Hann býr enn með Sofíu og þau eiga saman tvö börn. Þegar andstæðingarnir reyna að ná boltanum af Suárez eru þeir ekki bara að ræna hann sigrinum. Þeir eru að ræna hann lífinu og ástinni og senda hann aftur á stræti Montevídeó, þar sem hann verður aftur einn og fátækur. Sofía hafði einmitt flutt til Barcelona mánuði áður en Suárez réðst á dómarann. Þá var það dómarinn sem stóð í vegi hans og Sofíu Balbi.