Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ástsveltir Vetrarbræður

Mynd: Vetrarbræður / Vetrarbræður

Ástsveltir Vetrarbræður

04.10.2017 - 14:45

Höfundar

„Ég kalla þetta stundum „lack of love story,“ segir Hlynur Pálmason, leikstjóri Vetrarbræðra, opnunarmyndar RIFF í ár. „Kvikmyndin er bræðraódysseia. Hjartað, eða kjarninn í henni er vöntun á ást.“

Bræðrabönd, óhamingja og ofbeldi eru viðfangsefni myndarinnar. Söguþráðurinn lýsir átökum aðalpersónunnar Emils við vinnufélaga sína og eldri bróður. Þeir starfa við kalknámugröft á ótilgreindum stað og tíma og umhverfið einkennist af harðneskju og kulda.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hlynur Pálmason.

„Vetrarbræður eru ákveðin upplifun og það finnst mér mikilvægara heldur en einhver boðskapur. Það er ekki það sem ég vinn með. Þess vegna finnst mér mikilvægt að kvikmyndin sé opin og einstaklingurinn sem kemur inn í bíóið og sér hana, triggeri hana og geri að sinni,“ segir Hlynur. Vetrarbræður eru frumraun hans í fullri lengd og hefur vakið athygli á alþjóðlegum hátíðum.

Erfitt að skilgreina

Hlynur hefur starfað í Danmörku undanfarin ár eftir útskrift úr Danska kvikmyndaskólanum og Vetrarbræður eru dansk-íslenskt samstarfsverkefni. Aðalleikari myndarinnar, Elliott Crosset Hove, hlaut verðlaun í flokknum besti leikari fyrir hlutverk sitt í Vetrarbræðrum á kvikmyndahátíðinni í Locarno. Þá er hinn kunni danski leikari Lars Mikkelsen meðal leikara í myndinni.

Mynd með færslu
 Mynd: Vetrarbræður

Myndin hefur fengið þær umsagnir að hún óhefðbundin og erfitt að skilgreina hana. „Ég hef þá tilfinningu að hún kannski deili vatninu - ég finn fyrir því að sumir eru mjög hrifnir og ég finn fyrir því að aðrir eru ekki hrifnir,“ segir Hlynur.

Hljóðið sjálfstæður karakter í myndinni

Myndin er sjónræn og myndefnið grafískt en hljóðið gegnir síst minna hlutverki. Mikið er um lýsandi og áberandi umhverfishljóð, sem var gefið sérstakt vægi að sögn Hlyns. „Okkur langaði að hljóðið gerði ekki það sama og myndin. Okkur fannst eins og hljóðið væri hið innra og myndin hið ytra. Þannig var okkar nálgun, þannig töluðum við um hljóðið. Stundum getur hljóðið verið svo að maður renni vel í gegnum myndina, en mig langaði að hljóðið væri mjög expressíft. Að það myndi vera ákveðinn karakter í myndinni.“ 

Hlynur er hlaðin verkefnum. „Framhaldið er að reyna að fylgja Vetrarbræðrum smá eftir, reyna að gefa henni gott líf. Síðan erum við að undirbúa næsta verkefni, sem er á íslensku og heitir Hvítur, hvítur dagur.“

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Ástleysi og draumar – fjórar vitranir á RIFF

Kvikmyndir

Karlmennska, birnir og sjálfsíhugun á RIFF

Kvikmyndir

„Þetta er ein frábær mynd á eftir annarri“

Menningarefni

Keppir um Gullhlébarða með Mikkelsen að vopni