Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Áströlsk yfirvöld hóta hundum Depp lífláti

14.05.2015 - 05:18
epa04569760 US actor/cast member Johnny Depp arrives for the UK Premiere of 'Mortdecai' in central London, Britain, 19 January 2015. The movie opens in British cinemas on 23 January.  EPA/HANNAH MCKAY
 Mynd: EPA
Johnny Depp þarf að hundskast burt með hunda sína frá Ástralíu vilji hann forða þeim frá dauða.

Fréttastofa AFP greinir frá því að Depp hafi flogið til Ástralíu á einkaþotu sinni þar sem fram fara tökur á nýjustu mynd hans um sjóræningjana í karabíska hafinu og tekið tvo hunda sína með, þá Pistol og Boo. Slíkt er ólöglegt og lét Barnaby Joyce, landbúnaðarráðherra Ástralíu, hafa eftir sér í morgun að lög landsins yrðu ekki beygð þó þú heitir Johnny Depp.

Ströng lög eru um innflutning á dýrum í Ástralíu til þess að forðast að sjúkdómar berist til þarlendra dýra. Kettir og hundar sem koma til landsins verða að vera í sóttkví í það minnsta í tíu daga.

Joyce fékk tilkynningu um hundana eftir að Depp sást fara með þá til hundasnyrtis. Sagði hann Depp geta hundskast með þá til baka til Bandaríkjanna, að öðrum kosti verði þeir svæfðir. Hann býst ekki við því að verða boðið á frumsýningu myndarinnar sem verið er að taka upp.

Depp hefur tíma fram á laugardag til þess að fara með hundana úr landi. Fjöldi fólks hefur safnast saman fyrir utan stórhýsið sem hann leigði undir sig og hundana. Hefur hópur þeirra stofnað til undirskriftasöfnunar til þess að bjarga hundunum og eru næstum 3.000 búnir að skrifa undir.

Fjórar myndir hafa þegar verið gerðar um sjóræningjana í karabíska hafinu þar sem Johnny Depp leikur skipstjórann Jack Sparrow. Hvort stóra ástralska hundamálið eigi eftir að hafa mikil áhrif á hvort fimmta myndin verður kláruð á alveg eftir að koma í ljós.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV