Ástralía lokar á útlendinga og flug leggst nánast af

19.03.2020 - 05:45
epa08305423 A Qantas aircraft takes off from Sydney Airport in Sydney, Australia, 19 March 2020. According to media reports on 19 March 2020, Qantas has suspended all international flights and will stand down two-thirds of its 30,000-strong workforce until the end of May, due to the coronavirus pandemic.  EPA-EFE/JOEL CARRETT AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
Útlendingar fá ekki að stíga á land í Ástralíu frá og með morgundeginum nema þeir hafi þar gilt landvistarleyfi. Flug til og frá landinu verður afar takmarkað næstu mánuðina og gæti jafnvel lagst alveg af um hríð. Hvort tveggja er liður í baráttu stjórnvalda gegn farsóttinni sem nú geisar um allan heim, COVID-19.

Tony Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, tilkynnti í morgun að engir nema ástralskir ríkisborgarar og útlendingar sem þegar hefðu langtíma landvistarleyfi í Ástralíu fengju að stíga fæti á ástralska grund á næstunni. Bannið tekur gildi klukkan níu á föstudagskvöld að staðartíma, tíu í fyrramálið að íslenskum tíma, og miðar að því að hefta útbreiðslu kórónaveirunnar sem veldur COVID-19.

Smitin berast að utan

„Við teljum nauðsynlegt að stíga skrefinu lengra til að tryggja að við hleypum engum [inn í Ástralíu] sem ekki er ríkisborgari eða íbúi með dvalarleyfi eða nákominn ættingi slíkra,“ sagði Morrison í ávarpi sem hann flutti í dag. „Ástæðan fyrir þessari ákvörðun er sú að um 80 prósent smit-tilfella í Ástralíu má rekja til fólks sem er að koma frá útlöndum eða fólks sem hefur verið í samskiptum við einhvern sem var að koma frá útlöndum.“

Qantas og Virgin hætta að fljúga til og frá Ástralíu

Tvö stærstu flugfélög Ástralíu, Qantas og Virgin, hyggjast hætta öllu millilandaflugi í lok þessa mánaðar. Jafnframt mun innanlandsflug minnka um nær helming. Qantas skar millilandaflug sitt niður um 90 prósent í byrjun vikunnar, og það gerði dótturfyrirtæki þess, Jetstar, líka.

Skömmu síðar tilkynnti Virgin að félagið hyggðist hætta öllu millilandaflugi frá 30. mars fram í miðjan júní. Í morgun greindu stjórnendur Qantas svo frá því að félagið myndi líka hætta alveg að fljúga til og frá Ástralíu undir lok þessa mánaðar og ekki taka til við þá iðju aftur fyrr en í lok maí í fyrsta lagi. Um 20.000 af 30.000 manna starfsliði fyrirtækisins missa vinnuna. 

Segja Áströlum að hætta að ferðast til útlanda

Ríkisstjórnin beindi í gær eindregnum tilmælum til Ástrala um að hætta öllum ferðalögum til útlanda, í viðleitni til að hamla útbreiðslu kórónaveirunnar sem veldur COVID-19 farsóttinni.

„Aðgerðir til að hefta útbreiðslu veirunnar hafa leitt til þess að eftirspurn eftir flugferðum hefur minnkað hraðar og meira en við höfum nokkru sinni upplifað," sagði Alan Joyce, forstjóri Qantas, þegar hann greindi frá áætlunum félagsins. Þær áætlanir ná líka yfir starfsemi dótturfélagsins Jetstar, sem fyrr segir. Þá hyggst Qantas skera innanlandsflug sitt niður um 40 prósent en Virgin um 50 prósent.

Nokkur erlend flugfélög bjóða líka upp á flug til og frá Ástralíu, en eftir þessa nýjustu tilkynningu Morrisonser ljóst að það verður varla miklu lengur.

Skemmtiferðaskip bönnuð og fjöldasamkomur líka

Þegar hefur verið lagt blátt bann við komu skemmtiferðaskipa til landsins. Auk þess er búið að banna 500 manna samkomur og þaðan af stærri úti undir berum himni, og innandyra mega ekki fleiri en 100 koma saman á einum stað. Ríflega 700 COVID-19 tilfelli hafa verið staðfest í Ástralíu og fer nýsmitum fjölgandi dag frá degi. Sex hafa dáið af völdum sjúkdómsins þar syðra til þessa. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi