Ástralar binda vonir við yfirvofandi óveður

07.01.2020 - 04:38
epa08109253 A handout photo made available by Australia's Department of Defence on 07 January 2020 shows leading seaman aircrew Brendan Menz looking out the door of HMAS Choules' MRH-90 Maritime Support Helicopter over Southern New South Wales, Australia, 06 January 2020. Scattered showers are falling on NSW fire grounds as firefighters continue to work on containment ahead of warmer weather later in the week.  EPA-EFE/HELEN FRANK HANDOUT NO ARCHIVING, EDITORIAL USE ONLY HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - DEPARTMENT OF DEFENCE
Ástralskir slökkviliðsmenn keppast við að reyna að hefta útbreiðslu gróðurelda í landinu, rétt á meðan aðstæður leyfa. Hiti hefur lækkað talsvert síðustu daga auk þess sem örlítil úrkoma hefur gert skilyrði hagstæðari fyrir slökkvistörf. Von er á annarri hitabylgju í Ástralíu síðar í vikunni.

AFP fréttastofan hefur eftir Shane Fitzsimmons, slökkviliðsstjóra í Nýja Suður-Wales, að unnið sé að fyrirbyggjandi aðgerðum áður en hiti hækkar og vindur eykst undir lok vikunnar. Hversu langt það dugar er þó óvíst. Tugir elda geisa stjórnlaust um fylkið og óttast er að tveir stórir eldar í Nýja Suður-Wales og Viktoríu eigi eftir að tengjast og verða að risaeldsvoða sem engar hömlur verður hægt að hafa á.

Úrkoman í gær gerði lítið gagn að sögn AFP. Bæði var hún of lítil til að hamla eldunum, og sums staðar olli hún því að slökkviliðsmenn gátu ekki kveikt fyrirbyggjandi elda.

25 hafa farist frá því gróðureldar byrjuðu að kvikna í september. Yfir 1.800 heimili eru ónýt og um 80 þúsund ferkílómetrar gróðurlendis eru brunnir. Það er svipað svæði og allt Ísland utan Vestfjarða. Greint var frá því í gær að veðurstofur Síle og Argentínu hafi numið reyk frá eldunum. Ástralía er 12 þúsund kílómetrum frá löndunum, sem er svipuð vegalengd og frá Íslandi til sömu landa. 

Vonast eftir óveðri

Fitzsimmons greindi ABC fréttastofunni frá því í gær að aðstæður í næstu viku eigi ekki eftir að verða jafn slæmar og þegar ástandið var hvað verst. Það sé þó ekki mikið tilefni til bjartsýni. Margir eldanna eru allt of stórir til þess að hægt sé að slökkva þá. Það eina sem dugar gegn þeim er langvarandi úrkoma.

Fitzsimmons sagðist binda nokkrar vonir við óveðursstorm sem byrjaði að myndast undan norðvesturströnd landsins í gær. Hann sagði að það væri undarleg tilfinning að finnast gott að sjá storm í aðsigi. Vonandi ætti hann ekki eftir að valda neinum skaða, en á móti vonaðist hann eftir monsún-veðri sem gæti haft áhrif á heita loftmassann sem hafi stýrt veðrinu yfir landinu undanfarið. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi